spot_img
HomeFréttirÞórsarar of stór biti fyrir Blikastelpurnar

Þórsarar of stór biti fyrir Blikastelpurnar

 

Í dag kl.16:00 tóku Breiðabliks stelpur á móti liði Þórs Akureyris í Smáranum. Þórsarar stöðvuðu sigurgöngu þeirra og unnu leikinn 62-71.

 

Í byrjunarliði Blika voru þær Telma Lind Ásgeirsdóttir, Sóllilja Bjarnadóttir, Jóhanna Herdís Sævarsdóttir, Shanna Dacanay og Isabella Ósk Sigurðardóttir en hjá Þór Akureyri byrjuðu inn á þær Fanney Lind Guðmundsdóttir Thomas, Unnur Lára Ásgeirsdóttir, Rut Herner Konráðsdóttir, Erna Rún Magnúsdóttir og Thelma Hrund Tryggvadóttir.

 

 

Leikurinn byrjaði á 5 stigum í röð hjá Sóllilju í Breiðablik, þ.á.m. laaaaangur þristur, en Blikastelpur gátu ekki stöðvað stóra leikmenn Þórsara á hinum enda vallarins. Fanney Lind gerði sér mat úr stórum stelpum Blika og Unnur og Rut reyndust heimaliðinu líka erfiðar. Það leit út fyrir að Akureyrarmærarnar væru mættar og tilbúnar að hlaupa á meðan að Blikar voru ekki duglegar að sækja á körfuna, voru sumar á hálfum hraða og virtust andlausar. Kópavogsstúlkurnar voru oft að skjóta seint í skotklukkunni og fengu nokkrum sinnum dæmdar á sig 24 sekúndur. Það bjargaði leikhlutanum fyrir heimamenn að Sóllilja byrjaði sterkt og Telma Lind var ákveðin í að sækja á körfuna, enda skilaði hún 7 stigum á fyrstu 10 mínútunum. Staðan var því ekki svo slæm í lok fyrsta leikhluta, 16-17 Þórsurum í vil.

 

 

Þó að sóknarfraköstun í tölfræðinni beri þess ekki merki þá voru leikmenn Breiðabliks ekki duglegar að stíga út þær hjá Þór Akureyri. Heimastúlkur náðu að jafna leikinn í 21-21 á 3. mínútu annars leikhluta, en gestirnir héldu áfram að hreyfa boltann vel og fengu auðveldar körfur og stig frá mörgum leikmönnum. Áfram gætti andleysis eða einhvers konar þreytu hjá Blikum og sumar voru að labba þegar þær áttu að vera að hlaupa. Enginn leikmaður Þórs var á hálfum hraða og þær uppskáru eftir því; 25-33 í hálfleik Þór Akureyri í vil.

 

 

Blikar komu aðeins orkumeiri inn í seinni hálfleikinn, bekkurinn lét í sér heyra og heimamenn minnkuðu muninn í 5 stig. Enn og aftur skein reynsla stóru sterku stelpnanna hjá Þór Akureyri í gegn, en þær juku muninn aftur í 11 stig á nokkrum mínútum. Stelpurnar í Breiðablik hættu ekki að berjast og náðu undir lok leikhlutans að komast mjög nálægt Þórsurum. Þegar 70 sekúndur voru eftir af leikhlutanum stal Telma Lind öðrum bolta (1 af hennar 6 stuldum) og fór í auðvelt sniðskot; staðan 42-44 fyrir gestunum. Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, tók samstundis leikhlé með rétt rúma mínútu eftir og messaði aðeins yfir sínum leikmönnum. Hvað sem hann sagði hlýtur að hafa virkað því að stelpurnar hans skoruðu 4 stig á lokamínútu þriðja leikhlutans án þess að Blikastelpur gátu svarað. Liðin hófu því seinasta leikhlutann í stöðunni 42-48.

 

 

Lokaleikhlutinn hófst á nokkrum rándýrum þristum; Fanney Lind setti þrist, Telma Lind svaraði með sínum eigin þristi og Fanney tók þá upp á því að smella einum þristi af spjaldinu ofan í. Áfram gekk Blikum illa að frákasta og þær virtust ekki tilbúnar að leggja sig allar fram til að reyna laga stöðuna. Erna Rún, bakvörður hjá Þór, bókstaflega reif frákast úr höndunum á Isabellu Ósk, sendi á liðsfélaga sinn sem skoraði úr auðveldu skoti og þessi leikflétta var lýsandi fyrir leikinn í heild sinni. Þórsstelpur mættu til að leggja sig fram og vinna leikinn á meðan að stelpurnar í Breiðablik virtust stundum vera í einhverjum transi, eins og þær gætu ekki ímyndað sér að þær væru að fara tapa þessum leik. Á seinustu tveim mínútunum virtust Blikar vakna aðeins og reyndu að laga stöðuna, en allt kom fyrir ekki og Þór Akureyri sigraði Breiðablik á útivelli; 62-71.

 

 

Reynsluleysi sumra Blikastúlkna skein í gegn í þessum leik, en þær voru ekki undirbúnar fyrir það að þurfa að berjast fyrir hverri einustu tommu á móti þrælöflugu liði Þórsara. Breiðabliksstúlkurnar verða að læra að stíga betur út og að þær geti ekki mætt hálftilbúnar í leik á móti sínum erfiðasta andstæðingi. Þórsstelpur unnu leikinn skuldlaust á öflugri sveit reynslumikilla leikmanna sem að voru of stór biti fyrir Breiðablik.

 

 

Þór Akureyri trónir nú á toppi deildarinnar, en þær hafa innbyrðis viðureignina á Breiðablik (+7 stig) ásamt því að hafa hagstæðara heildarstigaskor (+11 stig). Þór Akureyri á tvo útileiki eftir fyrir jólafríið, einn á móti KR-ingum og hinn gegn b-liði Keflavíkur. Breiðablik á 3 leiki eftir fyrir jólin, tvo heimaleiki gegn Fjölni og Keflavík b og þar á milli útileik á móti KR-stelpum.

 

 

Breiðablik: Telma Lind Ásgeirsdóttir 24 stig/6 stolnir boltar, Sóllilja Bjarnadóttir 17 stig/6 fráköst/4 stoðsendingar, Isabella Ósk Sigurðardóttir 10 stig/19 fráköst/3 stoðsendingar, Shanna Dacanay 6 stig/3 stoðsendingar, Inga Sif Sigfúsdóttir 5 stig.

 

 

Þór Akureyri: Fanney Lind Guðmundsdóttir Thomas 22 stig/14 fráköst/3 stoðsendingar, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 15 stig/19 fráköst/3 stoðsendingar, Rut Herner Konráðsdóttir 14 stig/4 stoðsendingar, Thelma Hrund Tryggvadóttir 13 stig/3 stoðsendingar, Hrefna Ottósdóttir 4 stig, Heiða Hlín Björnsdóttir 3 stig/5 fráköst.

 

 

 

Tölfræði leiks

 

Myndasafn

 

 

 

Umfjöllun / Helgi Hrafn

 

Mynd / Bjarni Antonsson

Fréttir
- Auglýsing -