Í kvöld lönduðu Þórsarar 20 stiga sigri, 99-79 gegn Skagamönnum í 12. umferð 1. deild karla. Leikurinn var framan af jafn þar sem Þórsarar voru þó ávallt skrefinu á undan gestunum. Góður kafli í lok þriðja leikhluta hjá Þórsurum gerði útslagið og sigldu heimamenn öruggum 20 stiga sigri í höfn, 99-79.
Skagamenn byrjuðu þó leikinn betur og komust fljótt í 2-5. Heimamenn voru þó fljótir að svara fyrir sig og skoruðu næstu átta stig leiksins. Þórsarar voru ávallt skrefinu á undan gestunum í fyrsta leikhluta en leiddu þó leikinn aðeins með einu stigi, 16-15 er leikhlutanum lauk. Annar leikhluti byrjaði eins og sá fyrsti lauk. Jafnræði var með liðunum þar sem þau skiptust á að skora. Þórsarar náðu svo góðum spretti um miðjan fjórðunginn þar sem þeir nýttu sér lélega hittni gestanna og náðu að byggja upp 10 stiga forskot, 34-24. Gestirnir voru þó ekki af baki dottnir og náðu góðum 11-3 spretti og náðu að minnka forskot heimamanna niður í tvö stig, 37-35 og þannig var staðan er liðin gengu til búningsklefa.
Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn betur en heimamenn. Mikið jafnræði var þó með liðunum framan af 3. fjórðungi. Bjarki Oddsson kom af bekknum hjá heimamönnum og náði heldur betur að kveikja í Þórsurum með góðri vörn og þar af auki að setja niður 9 stig. Þórsarar náðu mjög góðum spretti undir lok þriðja leikhluta og náðu að byggja upp 18 stiga forskot, 73-55 áður en 4. leikhluti hófst. Fjórði leikhluti byrjaði nokkuð rólega og gekk liðunum brösulega að skora. Gestirnir náðu ágætum spretti um miðjan fjórðunginn og minnkuðu forskot heimamanna smá saman. Hins vegar fengu gestirnir tvær tæknivillur í röð fyrir kjaftbrúk. Páll Kristinsson fór á línuna fyrir heimamenn, setti tvö skot af fjórum niður en bætti það fljótt upp með að setja þriggja stiga körfu skömmu síðar og sigurinn því nánast í höfn. Heimamenn kláruðu lokamínútur leiksins og sigldu 20 stiga sigri í höfn, 99-79.
Texti: Sölmundur Karl Pálsson
Ljósmynd/ Palli Jóh: Óðinn Ásgeirsson sækir að körfu ÍA í gærkvöldi