spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÞórsarar í Subwaydeildina eftir rosalegan leik í Hólminum

Þórsarar í Subwaydeildina eftir rosalegan leik í Hólminum

Í kvöld mættust Snæfell og Þór frá Akureyri í fjórðu viðureign liðanna í undanúrslitum 1. deildar kvenna. Fyrir leikinn var það víst að leikurinn væri sannkallaður „allt eða ekkert“ leikur fyrir Snæfell. Það mátt auðveldlega sjá að leikurinn skipti miklu máli fyrir Hólmara því stúkan var troðin stuttu fyrir leik. Gaman að sjá að fjölmargir Þórsarar fylgdu sínu liði einnig í Hólminn. Stemmningin virkilega góð og allt klárt fyrir hörku leik í Stykkishólmi.

Gangur leiksins

Liðin mættu aldeilis vel stemmd til leiks og greinilegt að liðin voru að njóta þess að spila í frábæru andrúmslofti. Það gjörsamlega fór allt niður hjá liðinum og þristunum rigndi Snæfell með 4 af 8 og Þór með 5 af 7. Frábær skemmtun og leikurinn í járnum allan leikhlutan. Minea og Preslava með hörku leik og Eva að stjórna leik Þórs óaðfinnanlega. Staðan eftir 1. leikhluta var 24 – 21 fyrir Snæfell.

Á fyrstu mínútum 2. leikhluta var greinileg breyting á liðunum vörnin varð harðari og erfiðara fyrir vikið að skora. Snæfell náði 10 stiga mun en þá sögðu Þórsarar hingað og ekki lengra. Þórsarar áttu frábæran kafla og náðu að snúa leiknum sér í vil með frábærri vörn og góðri sókn. Hittnin hjá Þórsurum til fyrirmyndar eins og í 1. leikhluta. Staðan í hálfleik var 36 – 44 fyrir Þór og stemmningin gestana.

Þriðji leikhlutinn byrjaði eins og hinir á áhlaupi, það var komið að Snæfelli að eiga áhlaup. Baldur þjálfari Snæfells breytti til í vörninni (1-3-1 svæði) og náðu þannig að stoppa Madison allan fjórðunginn. Sóknarleikur gestana varð því mjög stirður á meðan Hólmarar börðust eins og ljón til að minnka muninn. Allt í einu voru Snæfellingar komnir yfir og leiddu eftir þrjá leikhluta 63 – 60. Rosalegur fjórði leikhluti í vændum eins og einvígið í heild sinni.

Fjórði leikhlutinn stóð heldur betur undir væntingum og það má segja að áhorfendur hafi verið algjörlega til fyrirmyndar þegar horft er á stemmningu og læti. Allir voru staðnir upp og öskruðu úr sér lungun á meðan tvö frábær lið spiluðu af mikilli innlifun. Leikurinn var fram og til baka, miklar tilfinningar og enn meiri barátta. Þegar 21 sekúnda lifði af leiknum áttu Þórsarar innkast og staðan 81-78 fyrir Snæfell. Þórsarar reyndu að spila „vagg og veltu“ nokkrum sinnum sem endaði með erfiðu skoti frá Hrefnu úr Horninu sem geigaði, Þórsarar hins vegar tóku sóknarfrákastið og aftur fékk Hrefna erfitt skot sem geigaði. Madison náði þá öðru sóknarfrákasti og fann Evu Wiium sem þakkaði pent fyrir sig og tók skot þegar 1 sekúnda var eftir af leiknum og ekkert nema net, hjá þessum frábæra leikmanni Þórs. Það var því framlengt og þakið ætlaði að rifna af húsinu. Var ég búinn að minnast á stemmninguna? Maður lifandi, stúkan pökkuð, tvær trommusveitir í sitt hvorum endanum og tvö lið sem gáfu gjörsamlega allt í leikinn.

Framlengingin hófst með því að Cheah skoraði tvö stig fyrir Snæfell en þá komu þrír þristar í röð frá Hrefnu, Madison og Heiðu Hlín. Eftir það skoruðu liðin til skiptis og þurftu Snæfell að freista gæfunnar með stórum skotum sem geiguðu. Framlengingin var erfið fyrir Snæfell og það datt því miður ekki mikið með þeim. Undirritaður vill hrósa Þórsurum fyrir frábæra baráttu og ótrúlega hittni í þriggjastiga skotum sínum en þær hittu úr 18 skotum af 36. Þórsarar eru með marga flotta leikmenn í bland við ungar og efnilegar stelpur. Leikurinn endaði 90 – 100 fyrir Þór frá Akureyri og eru þær komnar í Subwaydeild kvenna að ár. Það er frábært fyrir Akureyri að eiga lið í efstu deild og óskum við þeim innilega til hamingju.

Snæfell endar árið í frábæru einvígi í undanúrslitum og mega vera stoltar af sér og tímabilinu í heild sinni. Baldur setti saman skemmtilegt lið sem fór í undanúrslit í bikar og undanúrslit í úrslitakeppninni. Liðið kveikti heldur betur í gömlum glæðum hérna í Hólminum og vonandi halda Snæfellingar áfram að fá jafn mikinn stuðning á komandi árum.

Þór Akureyri mun spila á móti Stjörnunni um Íslandsmeistaratitilinn í 1. deild kvenna og það má búast við hörku einvígi þar og ég mæli 100% með því að fylgjast með frá upphafi.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Sumarliði Ásgeirsson)

Fréttir
- Auglýsing -