Fyrr í vikunni tilkynnti bandaríska háskólaliðið Nebraska Cornhuskers að leikmaður KR, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, myndi leika með þeim á komandi tímabili. Þórir verið hluti af meistaraliði KR síðustu ár, en á síðasta tímabili skilaði hann 10 stigum, 4 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í þeim 35 leikjum sem hann spilaði.
Við heyrðum í Þóri og spurðum hann aðeins út í flutninginn og hvað liggji á bak við svona ákvörðun.
Varðandi þá ákvörðun að fara til Nebraska segir hann ástæðuna einfalda. Honum hafi lengi langð að fara til Bandaríkjanna í háskóla og að sér hafi litist vel á þjálfarana og aðstöðuna hjá Nebraska. Að þeir hafi tekið vel á móti sér og heldur hann að honum eigi eftir að líða vel þar.
Viðburðarríkt sumar að baki hjá Þóri, þar sem að hann lék bæði sína fyrstu A landsliðsleiki fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum, sem og var hann einn lykilleikmanna undir 20 ára liðsins sem lék í A deild Evrópumótsins á Krít. Ákvörðunin um hvert hann skyldi fara eftir sumarið því dregist langt inn í sumarið, en segir hann að þó margir skólar hafi sýnt áhuga, hafi það verið 2-3 skólar sem komu að lokum til greina.
Þórir sér þetta sem frábært tækifæri fyrir sig á heildina litið og telur það forréttindi að fá góða menntun á fullum styrk samhliða því að spila körfubolta á þetta háu stigi. Þó hann telji þetta hárrétt skref, þykir honum á sama tíma mjög leiðinlegt að missa af Íslandsmótinu og Evrópukeppninni með KR í vetur.
Liðið sem að Þórir mun leika með, Nebraska Huskers, leikur í einni sterkustu deild háskólaboltans í Bandaríkjunum, Big Ten deildinni, en þar leika einnig stór lið á borð við Indiana Hoosiers, Michigan State Spartans, Michigan Wolverines, Maryland Terrapins, Ohio State Buckeyes, Wisconsin Badgers og fleiri.
Lið úr BIG Ten deildinni hafa í 11 skipti unnið NCAA titilinn og skila leikmönnum í NBA deildina á hverju einasta ári. Lið Nebraska leikur í Pinnacle Bank Arena í borginni Lincoln, þar sem 15 þúsund manns komast að á hvern leik, en Þórir segir að það sé allt annar áhorfendafjöldi en hann hefur vanist og að þar sé eiginlega alltaf uppselt.
Varðandi boltann sem spilaður er í háskólaboltanum og hvort að þetta eigi eftir að vera viðbrigði fyrir sig sem leikmann segir hann “Já, boltinn er töluvert öðruvísi úti. Hann er hraðari og samkeppnin er mikil. Big 10 er mjög sterk deild og ég er mjög spenntur að takast á við þetta.”
Að lokum sagðist Þórir auðvitað hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni, en að hann eigi samt örugglega eftir að sakna félaganna og þess að hafa ekki fjölskylduna í stúkunni.
Mynd / Þórir og þjálfari Nebraska Tim Miles