spot_img
HomeFréttirÞór óstöðvandi! (Umfjöllun)

Þór óstöðvandi! (Umfjöllun)

 
Þór hafði ansi öruggan sigur á grönnum sínum í FSU í Powerade bikarnum í Þorlákshöfn í kvöld 114-79. Það var strax ljóst á fyrstu mínútum leiksins að Þórsarar ætluðu ekkert að taka granna sína frá Selfossi neinum vettlingatökum, slíkur var krafturinn og áræðnin hjá heimamönnum. www.thorkarfa.com greinir frá.
Menn voru allir að leggja sig fram hver fyrir annan hjá Þór í fyrsta fjórðungnum, á meðan að það var einungis Richard Field sem var eitthvað að gera hjá FSu í leikhlutanum en hann skoraði 13 af 17 stigum gestanna í leikhlutanum. Hjá Þór var stigaskorið dreifðara og menn að spila fantagóða vörn og það skóp þeim flotta forystu inní annan leikhlutann, en staðan var 36-17 eftir fyrsta fjórðung.
 
Heimamenn í Þór héldu upptöknum hætti frá því í fyrsta leikhluta og settu upp skotsýningu í byrjun þar sem Hjalti Valur fór gjörsamlega hamförum og setti niður þrjá þrista á innan við tveimur mínútum. Eftir 3 mínútur í öðrum leikhluta voru Þórsarar búnir að skora heil 50 stig gegn aðeins 19 stigum FSU og orðið ljóst hverjir myndu fara með sigur á hólmi. Eftir að hafa horft á Þórsara setja upp skotsýningu fóru Selfyssingarnir að vakna frá værum blundi og að sama skapi fóru Þórsarar að vera kærulausir í sínum sóknarleik og reyna flókna og erfiða hluti. FSU strákarnir breyttu stöðunni úr 59-28 í 59-38 undir lok fyrri hálfleiks og hálfleikstölur voru síðan 61-40 fyrir Þór eftir þennan kipp FSU.
 
Þór byrjuðu þriðja leikhluta mjög vel og voru að hitta vel, en þeir áttu hinsvegar í stökustu vandræðum með Richard Field sem spilaði fantavel allan leikinn. Þórsarar voru að spila góða vörn í leikhlutanum þar til um miðbik leikhlutans þegar einhver værukærð kom yfir liðið og FSU liðar gengu á lagið og minnkuðu muninn í 17 stig, en það voru þó Þórsarar sem skoruðu 6 síðustu stig leikhlutans og fóru með 23 stiga forystu inní lokafjórðunginn 84-61.
 
Þórsurum hefur oft vantað í sinn leik að klára þá algerlega 100% þrátt fyrir að vera með örugga forystu og var ljóst að þeir ætluðu ekki að slaka á rónni í þetta skiptið og keyrðu vel á gestina og skoruðu heil 30 stig gegn 18 stigum FSU í lokaleikhlutanum og endaði leikurinn með sannfærandi sigri Þórs 114-79.
 
Það má segja að þetta hafi verið sigur liðheildarinnar því allir okkar leikmenn voru að spila fantavel og vinna hver fyrir annan og gaman að sjá hve mikill leikgleði ríkir í hópnum hjá Þórsurum. Erfitt er að týna menn úr sem stóðu upp úr í þessum leik og mun það ekkert vera gert hér, en eins og áður segir frábær sigur liðsheildarinnar.
 
Frá liði FSU var það einungis Richard Field sem var að spila vel í kvöld og spilaði hann frábærlega með 42 stig og 16 fráköst, en aðrir leikmenn voru að spila undir getu. Þetta var bara einn af þessum dögum hjá FSU sem ekkert virtist ganga og þ.á.m. voru þeir aðeins með 3 af 26 hittna úr þriggja stiga skotum á meðan að Þórsarar voru með ótrúlega nýtingu eða 16 af 21 skoti sem rötuðu ofan í.
 
Þar með er það orðið ljóst að Þórsarar eru komnir í 16 liða úrslitin í Powerade bikarnum. Gaman var að sjá í leiknum í gær voru þrír dómarar sem dæmdu leikinn, en stefnt er að því að nota þriggja dómara kerfið í efstu deild í framtíðinni.
 
Stigaskor
 
Þór: Eric Palm 32 stig/6 stoð/5 frák, Philip Perre 29 stig/6 frák/4 stolnir, Hjalti Valur 24 stig, Vladimir Bulut 15 stig/7 frák, Þorsteinn Már 5 stig/10 stoð, Bjarki Gylfason 5 stig/4 fráköst, Baldur Þór 4 stig/5 stoð.
 
FSU: Richard Field 42 stig/16 frák, Valur Orri 11 stig/5 stoð, Sæmundur Valdimarsson 7 stig, Arnþór Tryggvason 6 stig/6 frák, Guðmundur Auðunn 5 stig/4 frák, Orri Jónsson 4 stig, Sigurbjörn Jónsson 2 stig/4 frák, Svavar Stefánsson 2 stig.
 
Flottur sigur í gærkvöld hjá Þór og góður stuðningur áhorfenda. Næsti leikur Þórs er þann 12 nóvember klukkan 20:00 í Vodafone höllinni á Hlíðarenda á móti Valsmönnum.
 
Umfjöllun: Bjarni Már
 
Ljósmynd/ www.thorkarfa.com – Eric Palm fór mikinn í gærkvöldi
Fréttir
- Auglýsing -