spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÞór lagði Hrunamenn örugglega í Höllinni

Þór lagði Hrunamenn örugglega í Höllinni

Í kvöld fóru fram leikir í 6. umferð í keppni 1. deildar karla í körfubolta. Þór frá Akureyri fékk Hrunamenn í heimsókn. Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur en gestirnir að sunnan en eftir leikhlé sem gestirnir tóku jafnaðist leikurinn. Þá tók við áhlaup Þórsara sem stóð lengi þar sem munurinn varð mestur 21 stig. Rétt áður en leikmenn gengu til búningsherbergja að loknum 2. leikhluta náðu gestirnir að laga stöðuna þannig að munurinn var þrettán stig þegar leikurinn var hálfnaður, 51-38.

Upplegg Þórsara var greinilega að halda Aleksi Liukko, hinum hávaxna miðherja Hrunamanna, langt frá körfunni svo Hrunamenn gætu ekki fengið auðveldar körfur með því að senda boltann þangað á hann og að hann næði sem fæstum fráköstum. Þetta tókst þeim mjög vel. Jason Gigliotti og Baldur Jóhannesson í liði Þórs vörðust Aleksi gríðarlega vel. Hrunamönnnum þótti þeir ganga fulllangt fram í því að slá á hendur Aleksis en þeir gengu ekki lengra en dómarinn leyfði. Fyrir utan teig náðu Þórsarar líka að trufla flæði sóknarleiks Hrunamanna og skyttur liðsins fengu fá skottækifæri og þegar leikmenn liðsins réðust að körfunni og teymdu Þórsarana með sér inn í teiginn gekk boltinn sjaldan út fyrir teiginn aftur þar sem skytturnar biðu þess að fá boltann.

Þórsarar skoruðu mörg stiga sinna úr hraðaupphlaupum og hröðum sóknum. Í uppstilltum sóknum var boltinn mest í höndum Smára Jónssonar og Reynis Róbertssonar sem báðir áttu góðan leik. Reynir skoraði 23 stig og tók 10 fráköst. Jason var besti maður vallarins, skoraði 26 stig og tók 10 fráköst og kom auk þess í veg fyrir að Aleksi tæki fleiri fráköst en þau 16 sem hann náði með því að halda honum frá lausum boltum.

Vörn Hrunamanna var máttlaus í leiknum. Ákefðin var lítil og framkvæmdin letileg hjá einstaka leikmönnum liðsins sérstaklega eftir að Hrunamenn misstu Friðrik Heiðar Vignisson af velli í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik sáu áhorfendur í stúkunni sjúkraþjálfara Þórsliðsins veita Friðriki aðstoð vegna meiðslanna. Það er vert að taka slíkt drenglyndi fram í pistlinum. Hrunamenn reyndu að stöðva Þórsarana með því að leika svæðisvörn en árangurinn engu skárri en áður. Hins vegar gekk svæðisvörnin sem Þórsarar gripu til í seinni hálfleik prýðilega. Þeir fengu nokkrar auðveldar körfur að utan gegn henni.

Stigahæstur Hrunamanna var Bandaríkjamaðurinn Chance Hunter með 37 stig. Þau komu flest í lokafjórðungnum þegar leikurinn var tapaður og Chance tók yfir sóknarleik liðsins. Hann á oft auðvelt með að finna sér leið að körfunni með hraða- og stefnubreytingum og er þess utan ágætur skotmaður. Í gegnumbrotunum brutu leikmenn Þórs líka oft á honum og sendu hann á vítalínuna. Þaðan komu 16 af stigunum hans 37. Aftur á móti er boltinn á köflum óþarflega mikið í höndum Chance og Hrunamenn hljóta að fara fram á meira frá honum á hinum enda vallarins þar sem frammistaðan var ekki upp á marga fiska.

Í 7. umferð mæta Hrunamenn Þrótti á Flúðum en Þór fer á Skagann og mæta þar liði ÍA.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -