Þór frá Akureyri sótti 2 stig að Hlíðarenda í kvöld með sterkum varnarsigri, 68-72. Liðin skiptu forskotinu bróðurlega á milli sín og leiddu bæði lið með 7-9 stigum á einhverjum tímapunkti í leiknum. Konrad Tota átti stórleik og skoraði 37 stig og hirti 12 fráköst. Hjá heimamönnum í Val var Hörður Hreiðarsson atkvæðamestur með 17 stig og 9 fráköst. Þór gaf því spámönnunum 1. deildar sem spáðu þeim 4 sætum neðar en Valsmönnum í deildinni í vetur eitthvað til að hugsa um.
Bæði liðin voru lengi í gang og ekki laust við að einhver haustbragur mætti sjá á þeim. Það tók heimamenn 4 mínútur að koma fyrstu stigunum á töfluna og þegar leikhlutinn var hálfnaður hafði Þór náð þægilegu forskoti, 5-14. Valsmenn tóku hins vegar við sér þegar leið á leikhlutan og náðu að minnka muninn niður í 3 stig áður en flautað var til loka hans, 18-21.
Það var allt Valslið sem mætti í annan leikhluta en þeir skoruðu fyrstu 10 stig leikhlutans. Þeir leiddu því mest af öðrum leikhluta en Þór gaf hvergi eftir með Konrad Tota í broddi fylkingar sem fór hamförum í fyrri hálfleik og skoraði heil 22 stig. Gestirnir höfðu því endurheimt forskotið þegar flautað var til hálfleiks, 36-39.
Það var lítið um fína drætti í þriðja leikhluta en Valsmönnum tókst að halda aftur af Konrad Tota og þar með nánast stöðva sóknarleik Þórs. Heimamönnum tókst þó ekki að nýta sér það því liðin voru hnífjöfn þegar aðeins seinasti leikhlutinn var eftir, 49-49.
Valsmenn leiddu nánast allan fjórða leikhluta en þegar um það bil þrjár mínútur voru eftir jafnaði Konrad Tota, 62-62, og skiptust liðin á að skora næstu mínútur. Þór tók forskotið þegar rúmlega mínúta var eftir og fengu tækifæri til þess að ná forskotinu upp í 4 stig þegar 20 sekúndur voru eftir. það gerði Baldur Már Stefánsson ískaldur og eftir 2 leikhlé, nokkur innköst, villur og víti voru það gestirnir sem tryggðu sér fjögurr stiga sigur, 68-72 og fögnuðu innilega.
Konrad Tota sagði sigurinn vera móralst mjög sterkan fyrir sitt lið. ,,Þetta var risastór leikur, við vildum mæta og láta vita af okkur strax í fyrsta leik. Okkur gekk ekki sem skyldi á undirbúningstímabilinu. Við höfðum ekki alla heila eða á staðnum en þegar við erum allir hérna þá tel ég okkur vera mjög gott lið, jafn góða og hvaða lið sem er í deildinni. Það hefur ekki gengið vel hjá Þór Akureyri seinustu ár en við setjum markið hátt í ár svo hver sigur er mikilvægur”. Konrad Tota fór á kostum í leiknum og skoraði eins og fyrr segir 37 stig en það vill hann ekki þurfa gera í hverjum leik. ,,Ég vill ekki þurfa skora svona mikið í allan vetur, ég vill koma fleiri leikmönnum á töfluna svo ég vona að þetta verði ekki alltaf svona. Það er ekki gott fyrir liðið”.
Yngvi Gunnlaugsson, þjálfari Vals, var að vonum nokkuð vonsvikinn með úrslit kvöldsins en Valsmönnum er spáð 2. sæti í deildinni í vetur og því ekki vænlegt til árangurs að tapa fyrsta heimaleik tímabilsins. ,,Varnarlega vorum bara þokkalegir. Sóknarfráköstin töldu mikið hjá þeim, þeir voru sterkir í teignum og aftur var Tota okkur erfiður ljár í þúfu. Við erum með stóran hóp og það er mikil samkeppni sem átti auðvita að skila sér í leiknum. Gylfi kom inn frábær en málið var bara það að ég setti traust mitt svolítið á kanan í lokin. Að vonast til þess að hann myndi stíga upp en hann var bara að lenda í morgun og var bara ekki í standi til þess. Ég stend og fell með því. Hörður var með einhver 17 stig svo það er ekki hægt að segja að hann hafi ekki skilað sínu sóknarlega en það þurfa fleiri að leggja sitt af mörkum”.
Texti og myndir: Gísli Ólafsson