spot_img
HomeFréttirÞetta eru langskemmtilegustu leikirnir

Þetta eru langskemmtilegustu leikirnir

Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar var gríðarlega spenntur fyrir stórleik 11. umferðar Dominos deildar karla gegn uppeldisfélagi sínu KR er Karfan.is ræddi við hann í byrjun viku. Hrafn var gestur Podcasts Karfan.is í vikunni þar sem þessi mikilvægi leikir bar á góma. 

 

Leikurinn fer fram í kvöld klukkan 20:00 í Ásgarði og er ljóst að stemmningin verður mikil. Stjarnan varð fyrir mikilli blóðtöku í vikunni er það kom í ljós að Marvin Valdimarsson væri handarbrotinn. 

 

Stjarnan vann báða leiki liðanna á síðusta tímabili auk þess sem garðbæingar urðu bikarmeistarar árið á undan eftir æsilegan úrslitaleik gegn KR. Má því segja að Stjarnan hafi nokkurt tak á KR þessi misserin? 

 

„Ég veit ekki hversu mikið þetta tak er. Þetta voru bara tveir leikir þar sem þetta datt svona. Fyrri leikurinn snerist meira um á hvaða stað KRingarnir voru á þeim tímapunkti. Við sýndum það með klárlega í leikjunum á eftir hversu lélegir við gátum verið þannig við vorum ekki á neinu flugi.“ sagði Hrafn og bætti við:

 

„Í seinni leiknum töpum við 27 boltum en vinnum leikinn samt. Þessir leikir bera þess oft merki að ég, Finnur (Freyr Stefánsson) og þjálfaraliðin erum búnir að leikgreina hvorn annan alveg gríðarlega. Erum jafnvel að spá fyrir um hvernig þeir gætu verið búnir að leikgreina okkur og svo framvegis. Mér finnst þetta alveg ofboðslega gaman og í raun lang skemmtilegustu leikirnir.“

 

Hrafn viðurkenndi að KR væri með gríðarlega sterkt lið sem erfitt væri að leika við og sagði leikinn framundan vera allt annað en auðveldan.

 

„Heilt yfir þá hefur mér alltaf fundist þetta Stjörnulið passa ágætlega á móti KR og væntanlega gildir það sama í hina áttina líka. Ég held í raun persónulega að það sé ekkert lið á Íslandi sem KR passar eitthvað illa við. Við getum alveg gefið þeim góðan leik en til þess þarf nánast allt að ganga upp.“ sagði Hrafn sem var ekki viss um að klisjan um dagsformið ætti endilega við en bætti þó við.

 

„Ég hef rekið mig á það í gegnum tíðina að andlega hliðin er stór í þessu. Stundum skilur maður ekki alveg afhverju liðið manns er á tánum einn daginn og hælunum hinn. Við sýndum ekkert alltof fallegar hliðar af okkur í stórum hluta leiksins gegn Haukum. Það er einhver þrjóska sem býr í þessu liði, við erum inní öllum leikjum þrátt fyrir að spila illa.“ 

 

„Við höfum alltaf mætt tilbúnir andlega gegn KR og ég verð svekktur ef það verður ekki þannig í þessum leik.“ 

 

Þetta tímabilið leikur Hlynur Bæringsson með Stjörnunni eftir sex ár í atvinnumennsku. Því er þetta fyrsti leikurinn síðan þá sem hann og Sigurður Þorvaldsson leika saman en nú sem andstæðingar. 

 

„Ég held að þessum strákum hlakki ofboðslega til. Þarna eru þessir strákar að mætast aftur, það eru landsliðs strákar í KR sem Hlynur hefur spilað með og honum hlakkar held ég mikið til að spila þennan leik. Svo er ekki loku fyrir það skotið að Jón Arnór verði með, ég geri í raun frekar ráð fyrir því.“

 

Eins og fyrr hefur komið fram fer leikurinn fram í kvöld klukkan 20:00 en hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport. Jón Arnór Stefánsson verður að öllum líkindum ekki með KR í leiknum og þá kom í ljós í vikunni að Stjarnan mun tefla fram nýjum leikmanni í þessum stórleik. 

 

Þetta og mun meira má finna í Podcasti vikunnar með Hrafni Kristjánssyni sem má hlusta á í heild sinni hér að neðan: 

 

 

Fleiri þætti af Podcasti Karfan.is má finna hér.

 

Mynd / Tomasz Kolodziejski

 

Texti / Ólafur Þór Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -