11:48
{mosimage}
,,Nú er Sigurður Þorvaldsson kominn aftur inn í myndina hjá Snæfell og þeir eru klárlega með einn sterkasta heimaöllinn þarna í Stykkishólmi og ég er ekkert með sérstaklega góða reynslu af Hólminum,“ sagði Teitur Örlygsson þjálfari Subwaybikarmeistara Stjörnunnar sem mætir með sína menn í Stykkishólm í dag kl. 16:00 þegar Stjarnan og Snæfell mætast í sinni fyrstu viðureign í 8-liða úrslitum í Iceland Express deild karla.
,,Það er engin utanaðkomandi pressa á okkur og þó við séum vissulega sáttir við það sem komið er þá erum við engan veginn saddir. Við nálgumst þetta bara með þeim huga að hafa gaman af þessu og reyna okkar besta. Kannski eru margir sem telja að þetta sé hálf vonlaust hjá okkur því Snæfellingar eru með fimm tveggja metra menn og skjóta yfir 50% í þriggja stiga skotum en við reynum okkar besta,“ sagði Teitur sem er með nokkuð lágvaxnara lið en Snæfell en hvar þurfa Stjörnumenn að standa klárir á sínu?
,,Við þurfum bara að ná upp toppleik. Sama hvað um ræðir, barátta eða taktík. Það þýðir ekki að treysta eitthvað á Justin eða Jovan heldur þurfa allir að leggja sitt af mörkum,“ sagði Teitur sem hefur allar götur síðan hann tók við Stjörnunni endurskrifað körfuknattleikssögu Garðabæjar. ,,Þessvegna er akkúrat engin utanaðkomandi pressa á okkur. Pressan er Snæfellsmegin og hafa verið nálægt því að fara alla leið í keppninni og hafa verið mjög heitir síðustu vikur. Því er það bara fjör fyrir okkur að fara þarna Vestur og ég veit að það verður mikið tilhlökkunnarefni fyrir Justin sem var þarna síðustu tvö ár,“ sagði Teitur en þegar Stjarnan varð bikarmeistari var um spretthlaup að ræða en nú er hann kominn í annan leik, langhlaup, heila úrslitakeppni.
,,Þegar þú ferð að horfa eitthvað langt fram á veginn þá breytist ekki sú staðreynd að leikurinn í dag er bara körfuboltaleikur. Þegar ég tók við liðinu var það með bakið upp við vegg, þegar við fórum í bikarúrslit vorum við með bakið upp við vegg og svo núna í deildinni töpuðum við þremur leikjum í röð en áttum tvo góða sigra og erum komnir í úrslitakeppni svo við höfum leyst vel úr þröngum stöðum og leitumst eftir því að ná upp svipaðir stemmningu gegn Snæfell og við höfum gert í öðrum kerfjandi verkefnum í vetur,“ sagði Teitur Örlygsson þjálfari bikarmeistara Stjörnunnar.