Fjölnir lagði nýliða ÍR í kvöld í 9. umferð Subway deildar kvenna, 83-81. Eftir leikinn er Fjölnir í 5.-6. sæti deildarinnar með 6 stig líkt og Grindavík á meðan að ÍR er í 8. sætinu, enn að leita að fyrsta sigrinum eftir fyrstu níu umferðirnar.
Heimakonur í Fjölni leiddu lungann úr leik kvöldsins. Eru skrefinu á undan eftir fyrsta leikhluta, 25-20 og eru komnar 8 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-39. Enn bætir Fjölnir svo við forystu sína í upphafi seinni hálfleiksins og eru þær þægilegum 14 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 68-54. Í þeim fjórða kemur svo ágott áhlaup frá ÍR þar sem þær ná í eitt skipti að jafna leikinn, 81-81, en þá er tæp mínúta eftir. Á lokasekúndunum gengur liðunum erfiðlega að skora, en Taylor Dominique skorar sigurkörfu Fjölnis þegar um 10 sekúndur eru eftir af leiknum, 83-81. Ágætis tilraunir ÍR til þess að vinna leikinn undir leikinn missa marks og fer svo að lokum að Fjölnir siglir heim þessum tveggja stiga sigri, 83-81.
Atkvæðamest fyrir Fjölni í leiknum var Taylor Dominique með 36 stig og 12 fráköst. Best í liði ÍR var Greeta Uprus með 21 stig og 10 fráköst.
Bæði lið eiga leik næst þann 16. nóvember. Þá heimsækir Fjölnir Íslandsmeistara Njarðvíkur í Ljónagryfjuna á meðan að ÍR fær Val í heimsókn í Skógarsel.