spot_img
HomeFréttirTap gegn Portúgal í gær

Tap gegn Portúgal í gær

{mosimage}

 

 

Íslenska 16 ára landslið kvenna tapaði fyrir Portúgal, 58-66, í lokaleiknum sínum í b-deild evrópumótsins í Jyvaskyla í Finnlandi í gær. Íslenska liðið lék einn sinn besta leik í keppninni og það er ljóst að þrátt fyrir erfiða leiki og sterka andstæðinga þá hafa stelpurnar haft mjög gott af því að reyna sig gegn stóru þjóðunum í Evrópu. Íslenska liðið endar í 17. og síðasta sætinu en allir sjö leiki íslenska liðsins töpuðust. Fyrirliðinn, Hafrún Hálfdánardóttir, var stigahæst með 20 stig en hún var valin besti leikmaður íslenska liðsins í gær af mótshöldurum. 

 

Íslensku stelpurnar byrjuðu leikinn af miklum krafti, voru 11-5 yfir eftir rúmar þrjár mínútur, 19-8 yfir, eftir 5 mínútur og hafði 9 stiga forskot, 28-19, eftir fyrsta leikhlutann. Portúgalir náðu að snúa leiknum í öðrum leikhluta sem var slakasti leikhluti íslenska liðsins í leiknum. Íslensku stelpurnar náðu þá aðeins að skora 4 stig gegn 21 og gekk þá illa að leysa pressu portúgalska liðsins sem skoraði 10 af stigum sínum í leikhlutanum úr hraðaupphlaupum. Íslenska liðið var því komið 8 stigum undir í hálfleik, 32-40. Sá munur hélst í seinni hálfleiknum en sjö stigum munaði eftir þriðja leikhlutann, 50-57. Íslensku stelpurnar náðu muninum niður í fimm stig, 56-61, þegar fjórar mínútur voru eftir en nær komust þær ekki og Portúgal vann átta stiga sigur og spilar til úrslita um 15. sætið við Austurríki.

 

Hafrún Hálfdánardóttir hefur verið sjóðheit fyrir utan þriggja stiga línuna í mótinu og skoraði 12 af 20 stigum í gær fyrir utan. Hafrún nýtti 4 af 7 þriggja stiga skotum sínum og er þar með 40% skotnýtingu (12 af 30) fyrir utan þriggja stiga línuna í mótinu. Ragna Margrét Brynjarsdóttir tók 15 fráköst í leiknum auk 10 stig og stigahæsti leikmaður íslenska liðsins í evrópumótinu í Jyvaskyla, Lilja Ósk Sigmarsdóttir, var með 11 stig og 7 fráköst.

 

Atkvæðamestar hjá íslenska liðinu gegn Portúgal í gær:

Hafrún Hálfdánardóttir 20 stig (5 fráköst, 3 varin, hitti úr 4 af 7 þriggja stiga skotum)

Lilja Ósk Sigmarsdóttir 11 stig (7 fráköst, 3 stolnir)

Ragna Margrét Brynjarsdóttir 10 stig (15 fráköst)

Ingibjörg Jakobsdóttir 5 stig

Klara Guðmundsdóttir 5 stig (4 fráköst)

Guðbjörg Sverrisdóttir 4 stig (4 fráköst, 3 stoðsendingar)

Gunnhildur Gunnarsdóttir 3 stig

Kristín Fjóla Reynisdóttir, Salbjörg Sævarsdóttir, Helena Hólm og Lóa Dís Másdóttir skoruðu allar en náðu ekki að skora.

 

Frétt af www.kki.is

Fréttir
- Auglýsing -