spot_img

Taiwo HASSAN Badmus!

Draumurinn um oddaleik rættist eftir algerlega sturlaðan fjórða leik í Smáranum! Úrslitin ráðast í kvöld – nú er ekkert ,,gera betur í næsta leik“ í boði. Bæði lið eiga að sjálfsögðu skilið að hampa Íslandsmeistaratitlinum en annað liðið þarf að bíta í það súra epli að tapa í kvöld. Fyrir alla verður leikurinn vonandi skemmtilegur og spennandi en það hefur brunnið við í gegnum tíðina í oddaleikjum að annað liðið brotni á einhverjum tímapunkti. Taugatrekktir ættu að lesa áfram, Kúlan ætlar að segja þeim hvernig fer fyrirfram;

Kúlan:

Kári Jóns fyllir upp í Kúluna, einkum tungan á honum. Það þýðir að Valsmenn með nafna í broddi fylkingar munu sökkva Grindvíkingum í seinni hálfleik. 85-63 öruggur sigur Vals að endingu!

Byrjunarlið

Valur: Tamulis, Kiddi, Aron, Badmus, Kristó

Grindavík: Basile, Breki, Kane, Óli, Mortensen

Gangur leiksins

Leikurinn hófst á því ömurlega atviki að Kristófer Acox meiddist illa og var hreinlega borinn á börum af velli. En ef eitthvað eitt gott skal segja um Valsliðið þá er það LIÐ en ekki einstaklingar og meiðsli Kristó breyttu því ekki að heimamenn byrjuðu miklu betur. Valsarar komust í 18-12 og leiddu 27-22 að loknum fyrsta leikhluta. Badmus var illviðráðanlegur í leikhlutanum, setti 10 stig en því til viðbótar skyldi hann eftir heilan brauðhleif á vítalínunni! Kane og Valur Orri héldu gestunum inn í þessu með 9 og 5 stig.

Það var áfram góður Valstaktur í leiknum í öðrum leikhluta. Það er kannski orðinn þreytandi söngur að syngja um Valsvörnina en hún var söm við sig, algerlega frábær! Kiddi Páls tók sig svo til og raðaði niður nokkrum þristum og einn slíkur kom Val í 40-31 um miðjan leikhlutann. Monteiro setti skömmu síðar síðustu þrjá steinana í múrinn fræga og Jóhann tók leikhlé þegar góðar 2 voru til leikhlés í stöðunni 48-35. Gestirnir náðu aðeins að laga stöðuna fram að hléi, staðan 49-40, en sannarlega  dökkt yfir þessu fyrir gestina. Kane og Badmus voru báðir búnir að henda niður 15 stigum í hálfleik.

Grindvíkingar byrjuðu ljómandi vel í seinni hálfleik, ekki síst Valur Orri Valsson. Sá drengur er ekki hræddur við augnablikið, smellti niður tveimur þristum og Finnur tók leikhlé í stöðunni 52-50 þegar um 3 mínútur voru liðnar af þriðja. Valsmenn koma alltaf sterkir út úr leikhléum og á því var engin undantekning að þessu sinni. Heimamenn nánast lokuðu vörninni og mjötluðu niður stig hægt og rólega, þekkt stef má segja. Badmus var sem fyrr mest áberandi á sóknarhelmingi og að loknum þriðja leikhluta leiddu Valsarar með 11, 68-57.

Fjórði leikhluti einkenndist af mikilli baráttu enda væri annað óeðlilegt í lokaleikhluta oddaleiks! Grindvíkingar náðu hins vegar aldrei neinu flæði í sóknarleik sinn og Valsmenn héldu í taumana allt til enda. Kane fékk sína fimmtu villu snemma í leikhlutanum sem hjálpaði þeim eðlilega ekki neitt. Kristófer Breki minnkaði samt sem áður muninn í 5 stig um miðjan leikhlutann í stöðunni 73-68 en nær komust gestirnir ekki. Að vísu var munurinn einnig 5 stig þegar rúmar 2 mínútur lifðu leiks en Valsvélavörnin gaf þau skilaboð að það væri bara ágætis forysta! Lokamínúturnar tvær urðu í raun aldrei spennandi og lokatölur urðu 80-73 Valssigur sem var á einhvern hátt mun öruggari en lokatölurnar gefa til kynna. Valsmenn Íslandsmeistarar árið 2024!

Menn leiksins

Taiwo Hassan Badmus er þekktur fyrir það að vera bestur þegar mest á reynir. Það var heldur betur þannig í kvöld! Gaurinn setti 31 stig (af 80, ekki 120!), tók 14 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Rosalegur!

Kane var klárlega bestur gestanna, setti 17 stig, tók 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Hann spilaði ekki síðustu 8 mínúturnar eins og fram kemur að ofan.

Kjarninn

Valsmenn eru Íslandsmeistarar 2024 og eiga það auðvitað 100% skilið! Eins og minnst er á að ofan er Valsliðið LIÐ! Frábært lið, einstaklingar geta skorað en það þarf heilt lið til að verjast. Það gerir söguna bara betri að Valsarar hafa fengið ansi góðan skammt af meiðslum þetta keppnistímabilið. Síðasta meiðslaprófið var bara í byrjun þessa leiks þegar Kristó var borinn af velli. Það virtist bara ekki trufla liðið neitt, samt er Kristó frábær leikmaður eins og allir vita. Til hamingju með titilinn, Valsarar!

Grindvíkingar fundu aldrei leiðina til að skora svona heildina á litið gegn Valsvörninni. Grindavíkurliðið er frábært og hefur skemmt áhorfendum ítrekað og mikið í vetur. Það féll, því miður fyrir þá, í þeirra hlut að tapa í kvöld.

Smá athugasemd um dómgæslu: Undirritaður getur ekki orða bundist varðandi dómgæsluna í kvöld. Til að byrja með verður því ekki haldið fram að dómgæslan hafi ,,tapað leiknum“ fyrir gestina…EN annan eins djöfulsins flautukonsert hefur undirritaður sjaldan séð! Þvílík hörmungarlína sem dómararnir fylgdu í þessum leik. Vissulega vilja dómarar hafa tök á leiknum en þessi lína gersamlega eyðilagði leikinn heildina á litið, gerði hann hægan og leiðinlegan.

Tölfræði leiks

Myndasöfn (væntanleg)

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -