Í gær ritaði Magnus Jansson Klarin erindi inn á sænsku vefsíðuna www.basketsverige.se þar sem hann lýsti áhyggjum sínum með þróun mála í úrvalsdeildinni í Svíþjóð. Í grein sinni virðist nýjasta og sjöunda erlenda viðbótin í meistaraliði Sundsvall Dragons hafa fengið Magnus til þess að skunda fram á ritvöllinn og tjá sig um stöðu mála. Eins og flestir vita leika þrír íslenskir landsliðsmenn með Sundsvall, þeir Hlynur Bæringsson, Jakob Örn Sigurðarson og Pavel Ermolinski.
Magnus spyr í grein sinni hvort tímabært sé orðið að endurskoða regluverkið í kringum erlenda leikmenn í deildinni en sænska úrvalsdeildin er atvinnumannadeild með tíu liðum þar sem leikin er fjórföld umferð.
Magnus bendir á að Sundsvall hafi nú flutt til Svíþjóðar sjö erlenda leikmenn og að þeirra tilfelli sé alls ekkert einsdæmi í deildinni. Segir hann erlenda leikmenn yfirskyggja þá sænsku í liðum eins og Sundsvall, Jamtland, Boras og Norrkoping Dolphins. Segir hann þetta ískyggilega þróun og spyr hvort sé tími kominn til að breyta regluverkinu í þessum efnum.
Nefnir Magnus lönd eins og Ítalíu, Pólland og Tyrkland þar sem reglur kveða á um að ákveðinn fjöldi heimamanna verði að vera inni á leikvellinum, regla sem hann telur að gæti orðið sænskum körfuknattleik til framdráttar til lengri tíma litið. Þess má síðan geta að svipuð regla eða svokölluð 3-2 regla var felld með naumindum á síðasta ársþingi KKÍ sem fram fór í Skagafirði.
Magnus bendir á að erlendir leikmenn séu vel til þess fallnir að styrkja deildina en telur breytinga þörf því að öðrum kosti leggist af framleiðsla á sænskum körfuboltastjörnum. Klykkir hann út úr greininni með eftirfarandi fullyrðingu: ,,Við þurfum fleiri lið í úrvalsdeild þar sem sænskir leikmenn eru í eldlínunni en ekki í aukahlutverkum.“
Mynd/ Hlynur Bæringsson er einn þeirra þriggja íslensku landsliðsmanna sem eru á mála hjá Sundsvall Dragons.