Íslenska landsliðið í körfubolta vann frækilegan sigur á Bretum í Laugardalshöllinni í gærkvöldi. Fyrirfram var vitað að um mikilvægan leik væri að ræða. Leikur sem þurfti að sigra til þess að eygja möguleika á frekari þátttöku í Evrópumótinu. Fyrir mikilvæga leiki er nauðsynlegt að skapa stemningu og sú stemning þarf að vera að miklu leyti skipulögð.
Fjöldi áhorfenda mætti á leikinn og það er vel. Klappað var og fagnað þegar listamenn liðsins sýndu nokkur háloftatilþrif eða sökktu mikilvægum þristum. Þess á milli var nánast þögn í húsinu.
Sjálfur er ég ekki mikill áhugamaður um fótbolta en styð landsliðið okkar engu að síður og hef lengi vel dáðst að stuðningsveitinni “Tólfunni” sem sér um að hita upp og keyra í gang stemningu fyrir landsleiki – kvenna jafnt sem karla. Ferðast jafnvel með liðinu erlendis til að styðja við bakið á þeim. Hittast fyrir hvern leik og gíra sig upp fyrir hann. Mæta blá og rauð og máluð frá toppi til táar, veifandi fánum og syngjandi söngva til stuðnings liðinu.
Þetta er eitthvað sem landsliðum körfuboltans vantar sárlega. Það vantar skipulagða stuðningssveit fyrir landsliðið okkar. KR-ingar og “Miðjan” þeirra hafa gert feikilega góða hluti fyrir heimaleiki sína. Miðjan eltir liðið sitt jafnvel á útileiki í úrslitakeppninni og kæfir oft niður áhorfendur heimamanna.
Hvers vegna ætti þetta ekki að vera hægt á landsleikjunum okkar? Þrír af leikmönnum liðsins eru KR-ingar og tveir þeirra spiluðu margar mínútur í leiknum gegn Bretlandi. Hvers vegna er Miðjan ekki að fjölmenna á leiki og keyra upp stemninguna?
Enn betra væri að stuðningsmenn allra liða á landinu sameinist í almennilega stuðningssveit. Á landsleik er enginn KR-ingur eða Njarðvíkingur. Þá erum við Íslendingar og styðjum liðið okkar sama hver spilar.
Keyrum þetta í gang fyrir heimaleikinn gegn Bosníu 27. ágúst nk. Styðjum strákana okkar í blíðu og stríðu. Höfum læti á pöllunum og hvetjum þá áfram. En umfram allt með skipulögðum og sómasamlegum hætti.
ÁFRAM ÍSLAND!
Mynd: Tólfan (fengin að láni af Facebook síðu KSÍ)