spot_img
HomeFréttirStórleikur í Ljónagryfjunni í kvöld

Stórleikur í Ljónagryfjunni í kvöld

13:08 

{mosimage}

Sannkallaður stórleikur fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld þegar Íslandsmeistararnir taka á móti grönnum sínum úr Keflavík kl. 19:15. Það lið sem hefur sigur úr býtum kemst á toppinn með Skallagrím, KR og Snæfell fyrir jól. Auk toppsætisins er verið að berjast um montréttinn fræga en það lið sem hefur vinninginn í viðureignum Njarðvíkur og Keflavíkur hverju sinni getur sent „taparanum“ langt nef uns liðin mætast að nýju. Víkurfréttir tóku fyrirliðana Magnús Þór Gunnarsson og Friðrik Stefánsson tali og kapparnir eru klárir í baráttuleik. 

„Það er eins og Evrópuleikur að spila á móti Njarðvík. Ég vona bara að það verði það vel mætt að Erlingur Hannesson, kynnir á leikjum hjá Njarðvík, þurfi að biðja fólk um að standa í stúkunni,“ sagði Magnús Þór. „Bæði liðin eru dottin út úr Evrópukeppninni og nú er orrustan um efsta sætið í deildinni hafin. Bæði lið ætla sér á toppinn og við ætlum okkur ekkert annað en sigur í kvöld,“ sagði Friðrik.

{mosimage}

Síðast þegar liðin áttust við var það í upphafi leiktíðar í Powerade bikarkeppninni þar sem Keflavík landaði spennusigri 76-74 í Laugardalshöll.  „Njarðvík vann Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð og eru bestir núna, við ætlum okkur að vera bestir þegar þetta tímabil er búið,“ sagði Magnús sem gert hefur 15,3 stig að meðaltali í leik fyrir Keflavík í deildinni. Keflavík er nú í 4. sæti deildarinnar með 14 stig, jafn mörg stig og Njarðvík í 5. sæti en Keflavík hefur betra stigahlutfall. Friðrik er ekki ósvipaður rauðvíninu, verður betri með aldrinum og er nú með 15 stig að meðaltali og 10,8 fráköst. „Menn eru ekki sáttir með neitt nema sigur, það lið sem tapar verður ekki sátt við stöðu sína í deildinni um jólin,“ sagði Friðrik.  

Enn einn stórleikurinn millum þessara stórvelda í körfuboltanum fer fram í Ljónagryfjunni í kvöld og það gæti reynst vel að mæta snemma ef fólk vill fá gott stæði í stúkunni.    

Frétt af www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -