spot_img
HomeFréttirStórkostlegar frammistöður Ingu og Benónís er Ísland lagði Eistland í tvígang

Stórkostlegar frammistöður Ingu og Benónís er Ísland lagði Eistland í tvígang

Undir 16 ára lið Íslands leika þessa dagana á Norðurlandamóti í Kisakallio í Finnlandi. Mótið hófst 1. júlí og stendur til komandi sunnudags 6. júlí.

Bæði lið hafa nú leikið þrjá leiki, unnið tvo og tapað einum, en á morgun föstudag fá þau frí áður en þau leika gegn Danmörku og Finnlandi í lokaleikjum sínum um helgina.

Undir 16 ára lið stúlkna hafði nokkuð örugglega betur gegn Eistlandi í dag, 103-64. Nokkuð ljóst var strax í fyrri hálfleik leiksins að eistneska liðið var ekki komið jafn lagt og það íslenska. Héngu þó í Íslandi fram í seinni hálfleikinn, en þegar líða fór á hann gerði íslenska liðið útum leikinn. Inga Ingadóttir frábær í liði Íslands í leiknum, skilaði 27 stigum, 13 fráköstum, 3 stoðsendingum, 3 stolnum boltum og 5 vörðum skotum, en hún var með 48 framlagsstig fyrir frammistöðuna.

Hérna er meira um leikinn

Leikur undir 16 ára liðs drengja gegn Eistlandi var öllu jafnari, en að lokum fór Ísland einnig með sigur af hólmi þar, en eftir framlengdan leik, 109-96. Sá leikur var öllu kaflaskiptari. Ísland leiddi mest með 22 stigum í fyrri hálfleiknum, en tókst að kasta því frá sér í þeim seinni. Þurftu að lokum ótrúlegan þrist frá Daníel Snorrasyni til þess að tryggja sig inn í framlenginguna. Í henni var þetta svo aldrei spurning, Ísland sallaði stigum á töfluna og fór að lokum með sjaldséðan öruggan framlengdan sigur af hólmi. Benóní Andrason skilaði ótrúlegri frammistöðu fyrir Ísland í leiknum, tröllatvenna, 26 stig, 20 fráköst, 4 stoðsendingar, 2 stolna bolta, varið skot og frábæra skotnýtingu, en hann var með 47 framlagsstig fyrir sína frammistöðu í dag.

Hérna er meira um leikinn

Þess má geta að eftir fyrstu þrjá leiki mótsins leiða þau Inga og Benóní alla leikmenn mótsins í framlagi í leik.

Fréttir
- Auglýsing -