Undir 16 ára stúlknalið Íslands lagði Eistland í dag í þriðja leik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 103-64. Það sem af er hefur liðið því unnið tvo leiki og tapað einum, en næst eiga þær leik á laugardaginn gegn Danmörku.
Fyrir leik
Tvær góðar frammistöður Íslands á mótinu höfðu til þessa skilað þeim einum sigurleik og einu tapi. Unnu fyrsta leikinn gegn Noregi, en töpuðu svo naumlega gegn Svíþjóð í gær. Áhugavert fyrir þennan leik að sjá hvernig liðið myndi bregðast við eftir þungt tap í gær þar sem liðið leiddi lengst af.

Gangur leiks
Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað. Líkt og í fyrri leikjum liðsins var helsta vopn Íslands pressan þeirra. Hún virtist oft ganga vel hjá þeim og náði liðið þá góðum sprettum, en eistneska liðið fann glufur á vörninni og náði að halda leiknum spennandi inn í annan leikhlutann, 31-27 fyrir Ísland.
Ísland nær að byggja upp smá mun í öðrum leikhlutanum. Mikið til eru þær að passa boltann betur þá og uppskera að launum færri auðveld stig frá Eistlandi. Því forskoti hangir liðið á til loka fyrri hálfleiks og leiða með 12 stigum þegar liðin halda til búningsherbergja, 53-41.
Stigahæstar fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Inga Ingadóttir með 15 stig og Arna Eyþórsdóttir með 11 stig.
Íslenska liðið mætir svo af miklum krafti út í seinni hálfleikinn. Halda áfram að spila fantavörn og þá fá þær nokkra þrista til að detta fyrir sig. Fara mest með muninn í 25 stig undir lok þriðja fjórðungs, en staðan fyrir lokaleikhlutann er 78-53.
Var svo í raun og veru aldrei spurning hver leiklok yrðu í þeim fjórða. Ekki það að hvorugt lið tók fótinn af bensíngjöfinni. Íslenska liðið hélt því eistneska í virkilega þægilegri fjarlægð og vann að lokum örugglega, 103-64.

Kjarninn
Ekki ólíkt leiknum gegn Noregi á þriðjudag fékk maður það á tilfinninguna að íslenska liðið væri komið nokkuð lengra en það eistneska. Það þýðir ekki að þær hafi ekki þurft að hafa fyrir þessu. Þvert á móti. Spiluðu frábæra vörn á löngum köflum leiksins, framlag úr mörgum áttum og fengu skotin sín til að detta. Virkilega flott heildarframmistaða.
Atkvæðamestar
Inga Ingadóttir var stórkostleg fyrir Ísland í dag. Skilaði 27 stigum, 13 fráköstum, 3 stoðsendingum, 3 stolnum boltum og 5 vörðum skotum. Henni næstar voru Sigrún Brjánsdóttir með 15 stig, 6 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolna bolta, Arna Eyþórsdóttir með 16 stig, 5 fráköst, 4 stoðsendingar, Brynja Benediktsdóttir með 15 stig, 3 stoðsendingar og Helga Bjarnadóttir með 13 stig, 3 fráköst, 5 stoðsendingar og 2 stolna bolta.
Hvað svo?
Á morgun er frídagur hjá íslensku liðunum, en á laugardag munu þær mæta Danmörku kl. 14:00 að íslenskum tíma.