Boðið var upp á veislumáltíð með eftirrétti í kvöld í Síkinu þegar Íslandsmeistarar KR voru lagðir af heimamönnum í Tindastóli í framlengdum leik. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 86 – 86, en Stólarnir reyndust sterkari í framlengingu og höfðu 5 stiga sigur 99 – 94.
KR mætti hálf þunnskipað norður í land í kvöld, aðeins 8 menn á skýrslu, en búið var að skila David Tairu og síðan átti ungliðahreyfingin ekki heimangengt vegna prófa anna. Stólarnir hinsvegar með sitt sterkasta lið og fyrir þá byrjuðu Maurice, Helgi Freyr, Trey, Helgi Rafn og þá var Hreinn Gunnar Birgisson kominn í byrjunarliðið. Hjá KR voru það Skarphéðinn, Emil, Hreggviður, Finnur og Edward Horton sem hófu leik.
Það tók liðin smá stund að finna körfunar í kvöld, en eftir að KR skoraði fyrstu körfuna svöruðu Stólarnir með 8 stigum í röð. Þeir héldu síðan þetta 5 – 8 stiga mun út leikhlutann og leiddu að honum loknum 20 – 15.
Svipað var upp á teningnum framan af annað leikhlutann, Stólarnir leiddu með nokkrum stigum. Eftir tólf mínútna leik kom Hreggviður Magnússon sér í villuvandræði þegar hann fékk sína þriðju villu og Stólarnir hertu enn róðurinn og voru komnir í vænlega stöðu um miðjan leikhlutann í stöðunni 34 – 23. Þá hrökk sóknin í gang hjá KR, Emil skoraði sex stig í röð og Ólafur Már bætti við þristi án þess að heimamenn svöruðu og staðan orðin 34 – 32. Þessi sprettur kostaði reyndar aðeins varnarlega fyrir KR því bæði Finnur og Jón Orri nældu sér í sína þriðju villu á þessum kafla. KR komst síðan yfir 35 – 36, en karfa frá Hreini tryggði það að Tindastóll fór með eins stigs forskot inn í leikhléið, staðan í hálfleik 37 – 36. Eins og áður segir voru þrír KR-ingar komnir með þrjár villur, en hinu megin höfðu villur dreifst jafnar þar sem sjö leikmenn voru með eina villu og aðrir minna.
Í þriðja leikhluta vaknaði heldur á Maurice Miller hjá Tindastóli, hann setti niður fjóra þrista í fjórðungnum og alls 14 stig. Það nægði þó ekki til að hala inn forskot því jafnt var á nokkrum tölum eða liðin skiptust á að leiða. Mesti munurinn var 6 stig undir lok fjórðungsins í stöðunni 64 – 58, en KR lagaði það með fjórum síðustu stigum leikhlutans og því munaði tveimur stigum þegar liðin héldu inn í loka leikhlutann.
Sama baráttan hélt áfram í fjórða leikhluta og sáust tölur eins og 68 – 68 og 77 – 77. Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir fékk Trey Hampton sína fimmtu villu og í kjölfarið virtist KR vera að síga framúr. Þegar innan við mínúta var eftir leiddu þeir með 5 stigum í stöðunni 79 – 84. Þá tók Rikki sig til og smellti einum þristi niður fyrir heimamenn og þeir eygðu enn von. Finnur klikkaði á öðru ef tveimur vítum í næstu sókn og Helgi Rafn minnkaði muninn með sniðskoti í eitt stig 84 – 85. Enn klikkaði annað af tveimur vítum hjá KR, nú var það Skarphéðinn og Helgi Rafn endurtók leikinn og jafnaði leikinn 86 – 86. KR átti síðan lokaskotið, en niður vildi það ekki og því var framlengt.
Framlengingin fór mikið fram á vítalínunni og heldur fækkaði því í liðunum. Strax á fyrstu mínútu framlengingar fékk Helgi Rafn sína fimmtu villu, en stuttu síðar fylgdi Finnur KR-ingur honum. Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir var staðan enn jöfn 92 – 92. Þá fóru sóknir gestanna að klikka og þeir töpuðu boltanum í tvígang. Stólarnir héldu hinsvegar sínu striki, hittu úr 5 af síðustu 6 vítaskotum sínum í leiknum og innbyrtu sætan sigur 99 – 94.
Maurice Miller fór mikinn í kvöld fyrir heimamenn, hann skilaði 27 stigum þar af 25 í síðari hálfleik og framlengingu. Þá var hann með 11 fráköst og 14 stoðsendingar og munaði mikið um góða vítahittni hans. Næstir honum í stigaskori voru Svavar með 15 stig og Helgi Rafn með 14. Þá var gaman að sjá Hrein Birgisson koma með aukið sjálfstraust í leikinn í kvöld og skilaði hann 10 stigum.
Hjá KR átti Finnur Magnússon stórgóðan leik, skoraði 22 stig og tók 13 fráköst og hitti úr 12 af 15 vítaskotum sínum. Þá átti Emil fínan leik með 17 stig og 10 fráköst og Jón Orri skilaði líka góðum tölum. Það virðist hinsvegar nokkuð ljóst að Edward Horton Jr. verður ekki langlífur hjá KR með svipaðri frammistöðu.
Dómarar í kvöld voru þeir Jón Bender og Steinar Orri Sigurðsson og voru nokkuð grimmir að flauta á köflum.
Tindastóll: Miller 27, Svavar 15, Helgi Rafn 14, Hampton 12, Hreinn 10, Friðrik 10, Þröstur 6 og Helgi Freyr 5.
KR: Finnur 22, Emil 17, Jón Orri 14, Horton 14, Hreggviður 11, Ólafur 7, Skarphéðinn 6 og Páll 3.
Mynd/Úr safni
Texti: JS