Tindastólsmenn höfðu sætaskipti við Njarðvíkinga í Iceland Express deildinni í kvöld þegar þeir nældu sér í tvö góð stig í Ljónagryfjunni. Þristarnir komu á færiböndum hjá Skagfirðingum sem lögðu Njarðvíkinga 85-93. Tindastóll setti 12 þrista yfir Njarðvíkinga í leiknum, Friðrik Hreinsson og Svavar Birgisson gerðu átta af þessum tólf.
Með sigrinum í kvöld eru Tindastólsmenn í 8. sæti deildarinnar með 10 stig en Njarðvíkingar færðust niður í 10. sæti deildarinnar með 8 stig.
Gestirnir úr Skagafirði mættu kokhraustir til leiks og komust í 0-9 og slitu sig enn lengra frá Njarðvíkingum þegar Friðrik Hreinsson fann fjölina. Friðrik skellti niður þremur þristum í röð fyrir Stólana og breytti stöðunni í 14-25 en þá var Njarðvíkingum misboðið og fóru að svara fyrir sig. Grænir buðu upp á svæðisvörn með döprum árangri enda Stólarnir í banastuði fyrir utan. Njarðvík náði að loka fyrsta leikhluta með 6-2 dembu og staðan því 20-27 Tindastól í vil að honum loknum.
Njarðvíkingar héldu sig við svæðisvörnina í öðrum leikhluta, Helgi Freyr Margeirsson þakkaði fyrir sig með þrist og kom Stólunum í 22-30. Njarðvíkingar héngu allt of lengi í svæðisvörn og náðu aldrei að komast upp að hlið gestanna í fyrri hálfleik og Tindastólsmenn leiddu því 41-49 í leikhléi.
Friðrik Hreinsson setti alls fimm þrista yfir Njarðvíkinga í fyrri hálfleik og var kominn með 15 stig í liði gestanna en hjá Njarðvík var Cameron Echols með 15 stig.
Heimamenn í grænu mættu einbeittir inn í síðari hálfleikinn og á rétt rúmum fimm mínútum jöfnuðu þeir metin í 55-55 og léku þá maður á mann vörn sem gekk umtalsvert betur en svæðisvörnin í fyrri hálfleik. Stólarnir virtust á löngum kafla í þriðja leikhluta vera ráðþrota í sínum sóknarleik en náðu að slíta sig frá undir lok leikhlutans og leiddu 64-68 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Svavar Birgisson tók upp keflið í fjórða leikhluta þar sem Friðrik Hreinsson hafði lagt það frá sér í fyrri hálfleik, Svavar skellti niður þrist og breytti stöðunni í 64-71 og annar Tindastólsþristur leit dagsins ljós strax í næstu sókn og gestirnir komnir tíu stigum yfir í upphafi fjórða leikhluta.
Með harðfylgi náðu Njarðvíkingar að minnka muninn í 71-74 en nær komust þeir ekki. Gestirnir sigu fram úr á nýjan leik þegar Svavar Birgisson splæsti í enn einn þristinn og staðan 71-78. Lokatölur reyndust svo 85-93 í miklum slag þar sem Njarðvíkingar gerðu nokkrar fínar tilraunir til að komast nærri Tindastól en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Njarðvíkingar hafa nú tapað fjórum síðustu deildarleikjum sínum en með sigrinum í kvöld komust Tindastólsmenn aftur á beinu brautina eftir tap gegn Snæfell í síðustu umferð. Það var liðsframlagið sem vó þungt hjá Skagfirðingum í kvöld, alls sex leikmenn gerðu 11 stig eða meira í leiknum en þeirra atkvæðamestur var Curtis Allen með 21 stig og 8 fráköst. Hjá Njarðvíkingum voru Cameron Echols og Travis Holmes báðir með 21 stig. Holmes átti engu að síður fremur dapran dag en Ólafur Helgi Jónsson barðist vel í Njarðvíkurliðinu og þá voru þeir Svavar og Friðrik klárlega lykillinn að sigri Stólanna í kvöld og skoruðu stórar körfur þegar á þurfti að halda.
Heildarskor:
Njarðvík: Cameron Echols 21/10 fráköst, Travis Holmes 21/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 16/4 fráköst, Elvar Már Friðriksson 12/7 stoðsendingar, Hjörtur Hrafn Einarsson 6/8 fráköst/5 stoðsendingar, Maciej Stanislav Baginski 6, Oddur Birnir Pétursson 3, Sigurður Dagur Sturluson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Rúnar Ingi Erlingsson 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Styrmir Gauti Fjeldsted 0.
Tindastóll: Curtis Allen 21/8 fráköst, Friðrik Hreinsson 15, Svavar Atli Birgisson 13, Maurice Miller 11/5 fráköst/11 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 11/8 fráköst, Myles Luttman 11/9 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 5, Hreinn Gunnar Birgisson 4, Helgi Rafn Viggósson 2, Rúnar Sveinsson 0, Pálmi Geir Jónsson 0, Loftur Páll Eiríksson 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Einar Þór Skarphéðinsson
Mynd/ [email protected]
Umfjöllun/ [email protected]