spot_img
HomeFréttirStjörnumenn sáttir í jólafrí

Stjörnumenn sáttir í jólafrí

Það var alger jólastórleikur í Ásgarði í kvöld þegar liðin í öðru og þriðja sæti mættust, Stjarnan og Keflavík. Bæði lið höfðu unnið 6 leiki og tapað tveimur, svo það var ljóst að sigurlið kvöldsins myndi halda inn í jólafrí í öðru sæti.
Það var ljóst frá byrjun að bæði lið höfðu engan áhuga á að verma þriðja sætið yfir hátíðarnar. Leikurinn var frá byrjun mjög hraður og ákafur, mikið var skorað og margar villur dæmdar. Liðin skiptust á forystunni fyrstu mínúturnar og náðu hvorugt að taka fram úr andstæðingunum. Það voru þó heimamenn sem höfðu forystu í jöfnum leik að loknum einum fjórðungi, 32-28.
 
Stjörnumenn komu hins vegar mjög einbeittir í annan leikhluta. Keflvíkingar virkuðu klaufskir í sóknarleiknum og Stjörnumenn gjörsamlega átu öll fráköst, en í fyrri hálfleik tóku heimamenn 22 fráköst gegn 7 fráköstum gestanna. Stjörnumenn nýttu sér þá vankanta sem Keflvíkingar sýndu á sér og tóku þægilega forystu inn í leikhlé, staðan 61-47 í hálfleik.
 
Það virtist ekki í kortunum í upphafi seinni hálfleiks að Keflvíkingar kæmust aftur inn í leikinn, en Stjörnumenn komust fljótt í 17 stiga forystu. Keflvíkingar voru þó ekki dauðir úr öllum æðum og með frábærri vörn og mikilli baráttu tókst þeim að minnka muninn í 6 stig um miðjan leikhluta. Stjörnumenn stöðvuðu þó áhlaupið að lokum, en munurinn engu að síður 7 stig fyrir lokafjórðunginn, 78-71.
 
Munurinn hélst í 6 til 10 stigum framan af lokaleikhlutanum, en á síðustu þrem mínútum leiksins gerðu Stjörnumenn út um leikinn. Keflvíkingar misstu algerlega dampinn sem kom þeim í ágæta stöðu í þriðja leikhluta, en eftir hrikalega alley-oop troðslu Keith Cothran eftir sendingu Marvins Valdimarssonar var allur vindur úr gestunum. Stjörnumenn gengu á lagið og bættu enn frekar við forystuna og uppskáru að lokum 16 stiga sigur, 107-91.
 
Stigahæstir Stjörnumanna voru þeir Marvin Valdimarsson og Keith Cothran með 23 stig og Sigurjón Lárusson bætti við 20. Hjá Keflvíkingum var Charlie Parker með 27 stig og Steven Gerard skoraði 26. Leikurinn vannst að miklu leyti á fráköstum en þar höfðu Stjörnumenn mikla yfirburði, og voru tvíburarnir Guðjón og Sigurjón auk Fannars Helgasonar sterkir undir körfunni.
 
Það verða því Stjörnumenn sem verma annað sætið einir um jólin en Keflvíkingar verða að gera sér þriðja sætið að góðu.
 
 
Myndir/ Jón Björn Ólafsson
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson   
Fréttir
- Auglýsing -