spot_img
HomeFréttirStjörnumenn pökkuðu meðvitundarlitlum Njarðvíkingum

Stjörnumenn pökkuðu meðvitundarlitlum Njarðvíkingum

Það er ekki amalegt að eiga inni eitt stykki hörkuleik í Subway-deildinni en leik Stjörnunnar og Njarðvíkur var frestað á síðasta ári vegna flensuskíts. Njarðvíkingar hafa verið á hörku skriði að undanförnu og hafa tekið 4 leiki í röð. Stjörnupiltar hafa unnið 3 af síðustu 4 leikjum, ekki þó beint sannfærandi og sigurinn gegn Blikum í síðasta leik var af undarlega taginu. Hvernig líst Kúlunni á þennan?

Kúlan: Í Kúlunni góðu birtist skínandi rísandi stjarna á himinhvolfinu í vetrarkuldanum. Ekkert sérstaklega frumlegt hjá Kúlunni en auðtúlkanlegt, Stjörnumenn munu samkvæmt þessu koma mörgum á óvart og hafa sigur í kvöld, 91-83.

Byrjunarlið

Stjarnan: Hilmar, Gabrovsek, Turner, Hopkins, Tommi

Breiðablik: Haukur, Fotis, Basile, Richotti, Veigar

Gangur leiksins

Það var frábær andi í liði heimamanna og fyrstu 7 stigin voru þeirra. Eftir tveggja og hálfrar mínútu leik var staðan 11-3 og Benni tók leikhlé til að reyna að koma sínum mönnum til meðvitundar. Þegar 3 mínútur voru eftir af fyrsta fjórðung leiddu heimamenn 22-8 og var Haukur Helgi með öll stig gestanna! Staðan var aðeins skárri í fjórðungaskiptum, 23-12.

Maður skyldi ætla að frábærlega mannað lið Njarðvíkur myndi svara fyrir sig í öðrum leikhluta en það var öðru nær. Gabrovsek, Addú og Hopkins smelltu hver sínum þristinum á meðan boltinn neitaði að fara ofan í hjá gestunum. Meistari Logi setti að vísu 3ja stiga plástur á sína menn en blóðið rann tæplega í æðum þeirra svo það breytti litlu. Heimamenn komust í 37-17 og Gunnar Ólafs fylgdi því svo eftir með kraftmikilli troðslu. Það var klárlega lýsandi fyrir leikinn í heild að Mario klúðraði á ævintýralegan hátt sniðskoti aleinn undir körfunni og Gunnar Ólafs refsaði með þristi nokkrum sekúndum síðar og setti stöðuna í 42-22. Staðan var 53-30 í hálfleik og Benni hefði klárlega átt að senda alla sína menn í kalda sturtu í pásunni. Skotnýting gestanna hlýtur bara að vera einhvers konar met, 16% í tveggja stiga skotum og 26% í þristum, 22% í heildina!

Turner hóf síðari hálfleik með þristi en loksins mátti greina eitthvað jákvætt hjá gestunum þegar Basile tvöfaldaði stigaskor sitt með tveimur stigum og Richotti kom sér á blað! Haukur Helgi hélt áfram að gera sitt til að draga Njarðvíkinga áfram og Logi rétti honum hjálparhönd fyrir utan línuna. Hlutirnir eru fljótir að gerast í þessari fögru íþrótt og gestirnir minnkuðu muninn í 12 stig, 69-57 þegar lítið var eftir af þriðja. Heimamenn áttu hins vegar síðustu 4 stig leikhlutans og staðan því 73-57 fyrir lokafjórðunginn. Það var dæmigert fyrir leikinn að allt lífsmark Njarðvíkurmegin var sogað úr æðum þeirra í kjölfarið á einn eða annan hátt.

Líkt og Turner í byrjun þriðja setti Addú fyrstu 3 stig fjórða leikhluta og aftur var munurinn kominn í 20 stigin eða svo. Skárra var að fylgjast með sóknarleik Njarðvíkinga á næstu mínútum en heimamenn svöruðu líka með stigum og þá minnkar forskot ekki hratt. Logi opnaði smá rifu á augnlokum sinna manna með sínum fimmta þristi þegar 4 mínútur voru eftir og minnkaði muninn í 12 stig, 82-70 og Arnar tók þá eðlilega leikhlé. Maciek minnkaði muninn samt sem áður í 9 stig með sínum fyrsta þristi skömmu síðar en Gabrovsek skoraði af harðfylgi undir körfunni í kjölfarið og fékk víti að auki. Þá var eins og gestirnir hafi bara snúið sér á hina hliðina, bölvað því að hafa verið að hálfvakna fyrir þessi leiðindi og gefist formlega upp! Stjörnumenn héldu sama krafti út allan leikinn og kaffærðu gestina á lokamínútunum, 20 stiga sigur varð niðurstaðan, 97-77!

Menn leiksins

Sigur Stjörnumanna byggðist á liðsheild og góðum anda og þannig eru kannski bestu sigrarnir. Þó má nefna að Turner stýrði sínum mönnum vel, setti 21 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Einnig má nefna að Hilmar Smári, Gunnar Ólafs og Addú lögðu allir sín lóð á vogarskálina í þessum leik en þeirra framlag hefur ekki alltaf verið mikið í vetur.

Njarðvíkurmegin logaði helst einhver týra hjá Hauki Helga og Loga í þessum leik. Haukur setti 21 stig og tók 4 fráköst, Logi smellti 5 þristum í 10 tilraunum.

Kjarninn

Það er heldur betur léttara yfir mönnum í Garðabænum þessa dagana! Ævintýrasigur gegn Blikum í síðustu umferð og verulega góður sigur gegn sjóðheitum Njarðvíkingum í kvöld! Arnar benti á þá augljósu staðreynd í viðtali eftir leik að það er auðveldara að halda uppi góðum anda þegar vel gengur og þegar liðið er með forskot í leikjum. En frá fyrstu sekúndu leiksins var ljóst að liðsmenn Stjörnunnar voru mættir til að berjast fyrir sigri og héldu vöku sinni gegnum allan leikinn. Það verður athyglisvert að sjá hvernig liðið mætir í næsta leik gegn Keflavík í bikarnum en leik ÍR og Stjörnunnar hefur verið frestað, sennilega útaf flensuskítnum.

Það er fátt nýtt undir sólinni og lið eiga sína slæmu daga eins og gengur. Þetta var þó kannski af verri gerðinni hjá Njarðvík í þessum leik, frasinn um andleysi og að koma flatur inn í leikinn og blablabla á vissulega vel við í þetta skiptið. Benni og undirritaður vorum í það minnsta sammála um það að svona frammistaða mun duga mjög skammt gegn Íslandsmeisturum Þórs í Þorlákshöfn í næsta leik…en líkast til munu Njarðvíkingar mæta með lítið eitt opnari augu og ríkari meðvitund í þann leik en í kvöld.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -