spot_img
HomeFréttirStjörnumenn komu tímabilinu í framlengingu

Stjörnumenn komu tímabilinu í framlengingu

Stjörnumönnum hefur af einhverjum ástæðum ekki orðið gott af því að endurheimta menn úr meiðslum í vetur en bölvanlega hefur gengið hjá liðinu fullskipuðu að undanförnu. Liðið situr nú fyrir utan úrslitakeppnina í 9. sæti deildarinnar og tímabilið nánast undir í leik kvöldsins gegn Austanmönnum. Með sigri jafna Stjörnupiltar Hattarmenn að stigum en sigurinn þarf að vera stór, 18+, ætli þeir sér að hafa betur í innbyrðisviðureignum liðanna. Til vara eltast Garðbæingar við Sauðkræklinga sem hafa 2 stigum meira en þar hefur Stjarnan betur innbyrðis, þökk sé Kanervo.

Staðan hjá Hattarmönnum er allt önnur og betri. Sigur í kvöld nánast tryggir liðinu sæti í úrslitakeppninni en það yrði sögulegur áfangi fyrir Austanmenn. Þar að auki eiga Hattarmenn inni leik í Bítlabænum þó eigi verði þau auðsótt stigin frá Kef City. Pressan ætti því að vera minni á gestina en heimamenn í leik kvöldsins…hvernig mun spilast úr þessu Kúla góð?

Kúlan: ,,Neyðin kennir naktri konu að spinna“ heyrist frá Kúlunni og hún hristist af sjálfumgleði yfir því að láta sér detta í hug svona snjallt orðatiltæki. ,,Stjarnan vinnur semsagt, en ekki með 18+, gleymdu því. Lokatölur 84-78.“

Byrjunarlið

Stjarnan: Ægir, Júlli, Kanervo, Ellisor, Kone

Höttur: Buskey, Trotter, Adam, Suhr-Jessen, Ramos

Gangur leiksins

Stigaskor fór hægt af stað í kvöld en gestirnir brutu ísinn og leiddu með örfáum stigum til að byrja með. Ægir leiddi sína menn af stað um miðjan fyrsta leikhluta og heimamenn stungu nefinu framúr með góðum lokamínútum í fjórðungnum og staðan 24-18 að honum loknum.

Stjörnupiltar héldu naumu forskoti langt fram eftir öðrum leikhluta. Munurinn var þó aldrei mikill en þó 3 körfu leikur um miðjan leikhlutann, 38-33, og heimamenn á þeim tímapunkti e.t.v. vongóðir um að ná að slíta gestina frá sér. Draumurinn um 18 stiga sigur hlýtur líka að hafa blundað í mönnum en Austanmenn tóku þá á góðan sprett og allt í einu var Sæsi búinn að koma Hattarmönnum yfir 41-42 og enn góðar 3 mínútur til leikhlés. Er gengið var til búningsherbergja leiddu gestirnir með fjórum, 46-50. Það er auðvitað enginn munur en kannski ekki til þess fallið að róa taugar heimamanna fyrir síðari hálfleik í þessum mikilvæga leik.

Arnar hefur sagt við sína menn inn í klefa að setja meiri ákefð í varnarleikinn og Stjarnan hóf þriðja leikhluta 7-0. Ramos og Buskey stöðvuðu blæðinguna og allt var hnífjafnt um miðjan leikhlutann 59-59. Stjörnumenn áttu hins vegar mjög góðar síðustu þrjár mínútur leikhlutans og eftir á að hyggja má segja að sá kafli hafi lagt grunninn að sigrinum. 10 stiga múrinn frægi reis upp þegar 46 sekúndur lifðu af þriðja, 71-61, en Ramos setti móralskan flautuþrist í lokin og minnkaði muninn í 7 stig, 71-64, fyrir lokaátökin.

Sæsi átti flottan leik í kvöld og hóf fjórða leikhluta með þristi. Heimamenn náðu þó að hanga á 2-3 körfu forskoti næstu mínúturnar þar til fyrrnefndur Sæsi og Suhr-Jessen settu hvor sinn þristinn og þegar sléttar 5 mínútur voru eftir stóðu leikar 83-80. Allt í járnum og Arnar tók leikhlé. Stórmeistarar Stjörnuliðsins, Hlynur og Ægir, svöruðu Sæsa og Suhr-Jessen í sömu mynt eftir hléið. Þristurinn frá Ægi kom þegar um 3 mínútur voru eftir og var af dýrari gerðinni, setti stöðuna í 89-80 og má segja að hann hafi gert út um leikinn. Síðustu mínúturnar voru svolítið sérstakar þar sem bæði lið voru í bjartsýniskasti virtist vera – Hattarmenn að flýta sér í sókninni í von um að brúa bilið og Stjörnumenn sömuleiðis að flýta sér í von um að uppfylla drauminn um 18 stiga sigur! En hvoru tveggja var eins og wók-ísk útópía – lítið var skorað það sem eftir var og niðurstaðan 10 stiga sigur heimamanna, 92-82.

Menn leiksins

Ægir Þór var að vanda áberandi hjá Stjörnumönnum, setti 19stig, tók 6 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Ellisor var þó stigahæstur með 24. Annars voru margir sem lögðu í púkkið og liðið átti heildina á litið fínan leik.

Sama má segja um Hattarmenn, allir sem komu á gólfið hjá gestunum stóðu vel fyrir sínu. Suhr-Jessen var stigahæstur með 18 stig og tók 7 fráköst. Sæsi fær að vera með í þessum lið, setti 13 stig af bekknum og tók 4 fráköst.

Kjarninn

Arnar viðurkenndi það næstum því í viðtali eftir leik að þungu fargi væri af honum létt, þetta var hreinlega lífsnauðsynlegur sigur fyrir Stjörnuna. Undirritaður gleymdi að ræða um blauta drauminn um 18+ sigur við Arnar en það er þó tæplega nokkurn tímann beinlínis uppleggið að ætla að vinna svo stórt. Stjörnumenn ættu að vera og eru vafalaust einfaldlega sáttir með þennan sigur og það er alls ekkert ómögulegt að hlutirnir þróist á þann veg að liðið nái inn í úrslitakeppnina, Stjarnan hefur a.m.k. með sigrinum í kvöld komið sér í framlengingu á tímabilinu. Svakalegur lokasprettur framundan í deildarkeppninni! 

Viðar tók undir það með undirrituðum að spilamennska hans manna hafi verið á löngum köflum algerlega ásættanleg þrátt fyrir 10 stiga tap. Fyrir Hattarmenn er það augljóst markmið að komast í úrslitakeppnina, það hefur aldrei gerst áður og myndi marka tímamót hjá félaginu. Staðan er einfaldlega sú að liðið þarf að vinna fleiri eða jafnmarga leiki og Stjarnan. Það ætti að duga en ef Stólarnir blandast eitthvað inn í málið þarf reiknimeistara til að sjá út úr því. Einfaldast væri auðvitað fyrir Austanmenn að sækja sigur í Keflavík á mánudaginn næstkomandi en spyrjum að leikslokum.

Fréttir
- Auglýsing -