spot_img
HomeSubway deildinSubway deild kvennaStjarnan vann torsóttan sigur í Vesturbænum

Stjarnan vann torsóttan sigur í Vesturbænum

KR-ingar tóku í kvöld á móti Stjörnunni í annarri umferð Domino’s deildar kvenna. Bæði lið unnu góða útisigra í fyrstu umferð, en KR sótti tvö stig gegn Íslandsmeisturum Hauka á meðan Stjarnan vann Keflavík.

Það er óhætt að segja að leikurinn hafi verið ójafn til að byrja með, en gestirnir úr Garðabæ skoruðu fyrstu 17 stig leiksins og héldu heimakonum stigalausum fyrstu 8 mínútur leiksins. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 19-4 gestunum í vil, og virtust KR-ingar einfaldlega ekki mættar til leiks. Stjörnukonur voru eftir þetta yfirleitt með í kringum 10 stiga forystu, og þegar Danielle Rodriguez kom Stjörnunni 72-59 þegar einungis rúmar þrjár mínútur lifðu af leiknum héldu flestir að sigurinn væri í höfn hjá Stjörnunni. Heimakonur voru aldeilis ekki á sama máli og með ótrúlegri seiglu í bland við kæruleysi gestanna náðu KR-ingar að minnka muninn í tvö stig þegar einungis 10 sekúndur voru eftir. Nær komust heimakonur þó ekki og vann Stjarnan því sinn annan sigur á tímabilinu, lokatölur 74-78.

Af hverju vann Stjarnan?

Þegar á heildina er litið var Stjarnan betra liðið í kvöld, en kæruleysi síðustu þrjár mínúturnar varð liðinu næstum því dýrkeypt. Þær fóru þó með sigur af hólmi fyrst og fremst þökk sé góðum leik þeirra í fyrri hálfleik, en þegar uppi var staðið munaði um þau 17 stig sem Stjarnan skoraði í upphafi leiks. KR-ingar geta tekið sitthvað jákvætt úr leiknum, en þó er ljóst að liðið má varla við því að grafa sér jafndjúpa holu og þær gerðu í upphafi leiks. Seigla og baráttuandi liðsins undir lok leiks var þó aðdáunarverður og með smá heppni hefðu þær jafnvel getað knúið fram framlengingu.

Best

Margt hefur verið rætt og ritað um Dani Rodriguez í liði Stjörnunnar en óhætt er að segja að hún fari vel af stað í Domino’s deildinni þetta árið. Rodriguez skoraði 38 stig og tók 15 fráköst í kvöld og var hreinlega óstöðvandi. Þá virðist Florencia Palacios koma afar vel inn í Stjörnuliðið, en hún skoraði 20 stig með 73% skotnýtingu. Hjá KR voru þær Kiana Johnson og Orla O’Reilly bestar, en Johnson skoraði 30 stig og O’Reilly skoraði 24.

Framhaldið

Eftir leikinn eru Stjörnukonur með fullt hús stiga,  en Garðbæingar mæta næst Snæfelli á heimavelli þann 17. október. KR-ingar eru með tvö stig og mæta næst Val á útivelli sama dag.

 

 

Fréttir
- Auglýsing -