spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaStjarnan skein í Skagafirði - Íslandsmeistarar 2025

Stjarnan skein í Skagafirði – Íslandsmeistarar 2025

Stjarnan varð Íslandsmeistari í kvöld í fyrsta skipti í sögu félagsins eftir sigur gegn Tindastóli í oddaleik í Síkinu á Sauðárkróki, 77-82.

Stjarnan vann einvígið því 3-2, en leikur kvöldsins var sá eini í einvíginu sem útilið náði að vinna. Á leið sinni til úrslita hafði Stjarnan lagt ÍR í átta liða úrslitum og þá unnu þeir Grindavík í undanúrslitum úrslitakeppninnar.

Tindastóll aftur á móti geta nagað sig í handarbökin, þar sem þeir misstu af því að geta í fyrsta skipti í sögu félagsins unnið Íslandsmeistaratitil á sínum heimavelli, en áður hafði liðið í eitt skipti unnið þann stóra, einnig eftir oddaleik, gegn Val 2023.

Segja má að leikur kvöldsins hafi verið nokkuð kaflaskiptur. Tindastóll leiddi lengst af, mest með 11 stigum í upphafi seinni hálfleiksins. Stjarnan var hinsvegar aldrei langt undan og þegar líða tók á lokaleikhlutann náðu þeir góðum tökum á leiknum og gerðu gífurlega vel varnarlega á lokamínútunum.

Eftir að hafa fengið rúmlega tuttugu stig á sig þrjá fyrstu leikhlutana tekst Stjörnunni að halda heimamönnum í aðeins átta stigum í þeim fjórða á meðan þeir sjálfir halda dampi og setja átján stig. Sigla því framúr á lokamínútunum, vörnin heldur og þeir sigra leikinn með fimm stigum, 77-82.

Atkvæðamestur fyrir Íslandsmeistara Stjörnunnar í kvöld var Jase Febres með 12 stig, 16 fráköst og 5 stoðsendingar. Honum næstur var Orri Gunnarsson með 16 stig og 9 fráköst. Að því sögðu var þessi sigur Stjörnunnar í kvöld vegna góðrar liðsframmistöðu, þar sem Hilmar Smári Henningsson skilar 20 stigum og Júlíus Orri Ágústsson er með 9 stig af bekknum í seinni hálfleik.

Fyrir Tindastól var Sigtryggur Arnar Björnsson bestur með 18 stig, 6 fráköst og flotta varnarframmistöðu heilt yfir í leiknum.

Eftir leik var fyrirliði Stjörnunnar Ægir Þór Steinarsson valinn verðmætasti leikmaður úrslita, en hann skilaði 23 stigum, 6 fráköstum og 8 stoðsendingum að meðaltali í leikjunum fimm.

Tindastóll: Sigtryggur Arnar Björnsson 18/6 fráköst, Dedrick Deon Basile 14/9 fráköst/7 stoðsendingar, Sadio Doucoure 12/6 fráköst/6 stoðsendingar, Adomas Drungilas 12/9 fráköst, Giannis Agravanis 11/5 fráköst, Dimitrios Agravanis 7, Pétur Rúnar Birgisson 3/5 fráköst, Hannes Ingi Másson 0, Ragnar Ágústsson 0, Axel Arnarsson 0, Sigurður Stefán Jónsson 0, Davis Geks 0.


Stjarnan: Hilmar Smári Henningsson 20, Orri Gunnarsson 16/9 fráköst, Jase Febres 12/16 fráköst/5 stoðsendingar, Júlíus Orri Ágústsson 9, Ægir Þór Steinarsson 8/6 stoðsendingar, Bjarni Guðmann Jónson 7, Shaquille Rombley 7/7 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 3, Pétur Goði Reimarsson 0, Viktor Jónas Lúðvíksson 0, Kristján Fannar Ingólfsson 0.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -