spot_img
HomeFréttirStjarnan sigraði Hött í Ásgarði

Stjarnan sigraði Hött í Ásgarði

Í kvöld tók Stjarnan á móti Hetti í Ásgarði í leik liðanna í Lengjubikar karla. Höttur setti niður 7 stig strax á fyrstu mínútu leiksins áður en Stjarnan náði að svara fyrir sig. Þegar leið á leikhlutann hrökk Stjarnan í gang og leiddi með 5 stigum eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta jók Stjarnan enn forystu sína og náði 12 stiga forskoti áður en flautað var til hálfleiks, 53-41.  

Í þriðja leikhluta virtist Stjarnan ætla að sigla heim nokkuð öruggum sigri og náði mest 18 stiga forystu en með baráttu og góðum leik náði Höttur að minnka muninn niður í 12 stig fyrir lok leikhlutans. Höttur hélt áfram að saxa á forskot Stjörnunnar í fjórða leikhluta og var munurinn kominn niður í 2 stig þegar tæplega tvær mínútur voru eftir. Stjarnan neitaði hins vegar að láta forystuna af hendi og landaði að lokum 6 stiga sigri, 90-84.  

Stigahæstir í liði Stjörnunnar voru Al‘onzo Coleman með 25 stig/11 fráköst/5 stoðsendingar og Justin Shouse með 23 stig/6 stoðsendingar.

Hjá Hetti skilaði Tobin Carberry 39 stigum/12 fráköstum en næstir honum í stigaskori komu Eysteinn Bjarni Ævarsson með 15 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar og Hreinn Gunnar Birgisson með 13 stig.

Tölfræði leiks  
Myndasafn (Bára Dröfn)

Mynd: Al'onzo Coleman var stigahæstur leikmanna Stjörnunnar með 25 stig

Fréttir
- Auglýsing -