Garðbæingar halda áfram að rita sig á spjöld sögunnar en í kvöld urðu þeir Meistarar Meistaranna í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 80-89 sigur á Íslandsmeisturum KR í DHL-Höllinni. Jovan Zdravevski var drjúgur fyrir Garðbæinga með 33 stig en Brynjar Þór Björnsson sá um að draga vagninn fyrir KR með 29 stig.
Gestirnir úr Garðabæ byrjuðu vel og komust í 2-13 þar sem Fannar Helgason var heitur í upphafi leiks. Heimamenn í KR náðu þó að sparsla lítið eitt í götin í vörninni en gestirnir leiddu 13-23 eftir upphafsleikhlutann.
Semaj Inge var að leika sinn fyrsta leik í liði KR og fékk snemma þrjár villur í leiknum. Birgir Pétursson kom svo með góða baráttu inn í lið Stjörnunnar en um það leyti sem Tommy Johnson virtist vera að vakna fékk hann dæmt á sig tæknivíti í liði KR og fékk þar með þriðju villuna. Frá þessari villu upphófst síðan reyfarakenndur látbragðsleikur hjá Johnson sem hélt áfram til enda leiksins.
Að þessu sögðu má kannski bæta því við að nokkur harka var í leiknum en þó var það athyglisvert að margir leikmenn virtust hafa lagt stund á leiklist í sumar fremur en æfingar við að verða betri í körfubolta. Vonandi sjást þessir taktar ekki aftur á vellinum í vetur enda ömurlegir og taki þeir til sín sem eiga!
Þegar líða tók á annan leikhluta vaknaði Brynjar Þór Björnsson til lífsins og á skömmum tíma smellti hann niður tveimur þristum og minnkaði muninn í 39-48. Þá áttu KR-ingar góðan endasprett og stóðu leikar 41-48 í hálfleik.
Brynjar var enn heitur í þriðja leikhluta og minnkaði muninn í 45-48 með þrist en hann gerði sex slíka í leiknum í 10 tilraunum og afrekaði það að vera með betri þriggja stiga nýtingu í leiknum en vítanýtingu! Annar þristur frá Brynjari jafnaði metin í 48-48 og Brynjar lék á als oddi. Liðin skiptust á forystunni en heimamenn leiddu 64-61 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Fjórði leikhluti var ekki síður spennandi en þeir Fannar Helgason og Jovan Zdravevski reyndust einfaldlega of stór biti fyrir KR-inga. Saman gerðu þeir Jovan og Fannar 55 af 89 stigum Stjörnunnar og næstur þeim kom Justin Shouse með 15 stig en hann gaf einnig 13 stoðsendingar í leiknum.
Í heildina var leikurinn hin þokkalegasta skemmtun ef frá eru taldir leikrænir tilburðir nokkurra leikmanna í báðum liðum. Brynjar Þór sýndi að mikið mun mæða á honum í Vesturbænum í vetur en ef KR-ingar ætla sér að halda úti raunhæfri titilvörn mega þeir Tommy Johnson og Semaj Ingi aldeilis fara að hysja upp um sig brækurnar ásamt öðrum lykilmönnum liðsins. Stjörnumenn líta vel út fyrir tímabilið og ljóst er að þeir ætla sér mikla hluti enda hefur hópurinn lítið breyst heldur bættu þeir við sig harðjaxli í Magnúsi Helgasyni sem barðist vel í kvöld, setti 6 stig og tók 5 fráköst ásamt því að leika fína vörn.
Fín mæting var á leikina og er það vel enda mun ágóði af miðasölunni renna til Neistans, styrktarfélags hjartveikra barna.
Texti og mynd: Jón Björn Ólafsson, [email protected]