spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaStjarnan leikur í 1. deild kvenna í vetur

Stjarnan leikur í 1. deild kvenna í vetur

Stjarnan úr Garðabæ hefur dregið lið sitt úr Domino’s deildinni og mun leika í 1. deild kvenna í vetur, en þetta kemur fram í yfirlýsingu sem körfuknattleiksdeild félagsins sendi frá sér fyrr í dag.

Stjarnan átti sitt besta tímabil frá upphafi í kvennaflokki, en liðið lenti í 3. sæti Domino’s deildarinnar auk þess að komast í úrslit Geysis-bikarsins, þar sem liðið lá fyrir Val. Þá datt liðið út í undanúrslitum Domino’s deildarinnar gegn Keflavík, eftir oddaleik.

Ástæða ákvörðunarinnar er sú að fjórir af fimm byrjunarliðsmönnum liðsins frá síðasta tímabili eru horfnar á braut og verða því ekki með liðinu í vetur. Þar sem enn er nokkuð í að hægt sé að byggja liðið upp á uppöldum Stjörnukonum, voru þeir kostir einir í stöðunni að semja við erlenda leikmenn fyrir átök vetrarins í Domino’s deildinni, eða byggja á ungum uppöldum leikmönnum í 1. deildinni. Stjórn félagsins, bæði stjórn körfuknattleiksdeildar sem og aðalstjórn, mátu það svo að hagur kvennakörfuboltans í félaginu væri að fara með liðið í 1. deild og stilla upp liði byggðu á uppöldum leikmönnum.

Breiðabliki, sem féll úr Domino’s deildinni í vetur, hefur þegar verið boðið að taka sæti Stjörnunnar.

Yfirlýsingu kkd. Stjörnunnar má lesa hér að neðan.

Tilkynning frá Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar

Stjórn Kkd. Stjörnunnar hefur tekið þá ákvörðun að draga kvennalið Stjörnunnar úr úrvalsdeild á komandi tímabili, en vera þess í stað með lið í 1. deild.

Fyrir þessu eru nokkrar ástæður. Helsta ástæðan er sú að fjórir af fimm byrjunarliðsleikmenn síðasta tímabils verða ekki með liðinu á næsta tímabili. Þar sem nokkuð vantar upp á að Stjarnan geti skipað liðið með uppöldum Stjörnuleikmönnum væri eina úrræði Stjörnunnar að fá erlenda leikmenn, eða leikmenn frá öðrum liðum, í þeirra stað.

Stjórn Kkd. Stjörnunnar metur það svo að heppilegra sé að hlúa betur að yngri iðkendum Stjörnunnar og leggja grunn að liði sem gæti spilað í úrvalsdeild innan fárra ára.

Í Stjörnunni er talsverður fjöldi af efnilegum leikmönnum á aldrinum 15 – 18 ára. Þar innan um eru leikmenn sem eiga fullt erindi í 1. deild, en fengju fáar mínútur í úrvalsdeild. Með því að spila með liði í 1. deild fá þessir leikmenn hins vegar bæði þá reynslu og samkeppni sem þær þurfa til að eflast sem leikmenn.

Þessi ákvörðun var ekki auðveld og þær og forsendur sem liggja að baki henni bar brátt að.  Stjórn Kkd. Stjörnunnar tók hana hinsvegar með hag iðkenda og stöðu kvennakörfubolta í Stjörnunni í huga og að vandlega athuguðu máli.

Skíni Stjarnan !

Fréttir
- Auglýsing -