spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaStjarnan kórónaði deildarkeppnina með spennandi sigri á Snæfell - Úrslitakeppnin framundan

Stjarnan kórónaði deildarkeppnina með spennandi sigri á Snæfell – Úrslitakeppnin framundan

Stjarnan tók á móti Snæfell í seinasta leik tímabilsins í 1. deild kvenna í kvöld. Fyrir leik var ljóst að Stjörnustelpur væru orðnar deildarmeistarar 1. deildar kvenna og myndu taka á móti bikarnum í lok leiksins. Leikurinn var ekki upp á neitt annað en heiðurinn enda voru sæti beggja liða í deildinni föst og úrslitakeppnissætin ráðin. Þetta var því nokkurs konar æfingarleikur fyrir úrslitakeppnina. Stjarnan vildi þó líklegast fá afhentan deildararmeistarabikarinn eftir sigur.

Leikurinn var nokkuð sveiflukenndur, en þó spennandi, og lauk með naumum sigri heimaliðsins; 74-73.

This image has an empty alt attribute; its file name is 4-1.png

Gangur leiksins

Strax frá dómarakastinu var skrítin orka í leiknum. Leikurinn skipti þannig séð engu máli og stemmingin eftir því til að byrja með. Stjarnan náði ekki að skora fyrr en eftir tæpar þrjár mínútur en að sama skapi voru Snæfellsstúlkur mikið að tapa boltanum og því var nokkuð jafnræði með liðunum. Heimastúlkur náðu forystunni um miðbik leikhlutans en Hólmarar gátu unnið muninn niður og náðu að klára fjórðunginn einu stigi yfir; 16-17 fyrir Snæfell.

Stjarnan mætti inn í annan leikhlutann aðeins slakari en Snæfell og misstu heimastúlkur þar með gestina aðeins frá sér. Þær hvít- og bláklæddu náðu hins vegar að herða sig aðeins varnarlega og aukni ákafinn fór að skila sér í sókninni. Vandinn var að skotnýtingin var ekkert sérlega góð hjá Garðabæjarliðinu og því höfðu Snæfellingar enn forystu í hálfleik; 36-40.

Seinni hálfleikurinn byrjaði með smá áhlaupi Stjörnunnar en þáð entist því miður ekki lengi. Snæfellingar tóku góðan slurk og komust tíu stigum yfir á einum tímapunkti. Heimakonur hættu þó ekki og unnu muninn aftur niður með sterkari vörn og betri boltahreyfingu. Staðan hafði ekkert breyst í lok þriðja leikhluta; fjögurra stiga munur í stöðunni 53-57.

Áfram héldu leikar en Stjarnan virtist ekki geta komið muninum niður fyrir 4 stig. Diljá Ögn Lárusdóttir, sem hafði hitt mjög illa í fyrri hálfleik, var aðeins farin að setja nokkur skot og átti frábært varið skot þar sem hún elti niður Rebekku Rán Karlsdóttur. Snæfell náði samt sem áður að halda aftur af Stjörnunni þar til í brakinu.

Þegar tæpar tvær mínútur lifðu leiks setti Bára Björk Óladóttir stóran þrist úr horninu til að koma muninum í niður þrjú stig. Við tók æsispennandi lokakafli. Stjarnan fékk vítaskot en nýtti aðeins annað. Cheah Whitsitt kom muninum aftur upp í fjögur stig en bandarískur leikmaður Stjörnunnar svaraði með körfu á móti í næstu sókn.

Ísold Sævarsdóttir, ungur fyrirliði Stjörnunnar, átti síðan jöfnunarkörfuna þegar tæplega ein skotklukka var eftir af leiknum, staðan 73-73. Þá tók við sérkennileg atburðarás. Snæfell tekur leikhlé en leikmaður Snæfells fær tæknivillu dæmda á sig þegar hún er sest á bekkinn í leikhléinu. Stjarnan fær því vítaskot sem kemur þeim yfir, 74-73! Snæfell tekur boltann upp og setur af stað leikfléttu til að reyna endurheimta forystuna. Þá kemur fyrirliðinn Ísold aftan að bandarískum leikmanni Snæfells og stelur boltanum! Hólmarar neyðast til að brjóta og leikurinn endaði þar með. Lokastaða 74-73, deildarmeisturum Stjörnunni í vil.

Tölfræði leiksins

Vendipunkturinn

Vendipunktur leiksins var þriggja stiga karfa Báru Bjarkar Óladóttur þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Stjarnan hafði ekki komist nær en fjögur stig frá því í byrjun seinni hálfleiksins þegar Bára setti þetta mikilvæga skot til að koma muninum í eina sókn.

Stjörnubekkurinn reis upp með látum og áhorfendur fögnuðu grimmt við þetta skot sem gaf Stjörnustúlkunum orkuna og trúnna sem þurfti til að slútta leiknum.

Atkvæðamestar

Ísold Sævarsdóttir, fyrirliðinn knái, átti flottan leik fyrir Stjörnuna í kvöld. Hún skoraði 15 stig, tók 8 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal tveimur boltum. Riley Popplewell átti líka góðan leik með 13 stig, 17 fráköst og þrjá stolna bolta.

Hjá Snæfell var Cheah Whitsitt best með 24 stig, 19 fráköst og 30 framlagspunkta á heildina. Ylenia Bonett átti góða innkomu af bekknum og skoraði 8 stig ásamt því að rífa niður 15 fráköst! Hún varð næst framlagshæst hjá gestunum með 22 framlagspunkta.

Tölfræðimolinn

Hjá byrjunarliði Stjörnunnar gætti mikils jöfnuðar, enda skoruðu þær allar á bilinu 13-15 stig í leiknum. Aðeins fimm stig komu frá bekknum, öll í boði Bergdísar Lilju Þorsteinsdóttur.

Snæfells megin reiddu þær úr Hólminum sig heldur mikið á erlenda leikmenn sína, en aðeins 10 stig af 73 stigum liðsins komu frá íslenskum leikmönnum.

Kjarninn

Stjarnan fer þá inn í úrslitakeppni 1. deildar kvenna með enn annan sigurinn í farteskinu. Þær unnu fyrstu 12 leiki sína í deildinni, þrjá af næstu sex leikjum sínum og enduðu síðan á að vinna seinustu sex leikina. Það er spurning hvort að þær nái að halda sigurhrinunni áfram og sópi jafnvel bara úrslitakeppninni? Kemur í ljós, en fyrsti leikur Stjörnunnar verður á heimavelli þann 25. mars gegn KR.

Snæfell var í þriðja sæti deildarinnar fyrir leikinn og það hefði ekki breyst sama hvernig leikurinn hefði farið. Þær mæta á Akureyri þann 25. mars til að reyna vinna Þórsara og koma sér þannig í úrslitaséríuna og komast jafnvel upp í úrvalsdeild kvenna með þremur sigrum í þeirri séríu. Kemur í ljós.

Viðtöl

Ísold Sævarsdóttir, ungur fyrirliði Stjörnunnar.
Diljá Ögn Lárusdóttir, stigahæsti leikmaður Stjörnunnar á tímabilinu.
Auður Íris Ólafsdóttir, þjálfari Stjörnunnar.

Viðtöl, mynd með frétt og umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -