spot_img
HomeFréttirStjarnan komst í 2-0 eftir háspennuleik

Stjarnan komst í 2-0 eftir háspennuleik

 

 

ÍR-ingar tóku á móti Stjörnumönnum í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Domino’s deildar karla. Stjörnumenn unnu fyrsta leik liðanna í Ásgarði eftir hörkuleik en sá leikur gaf verulega góð fyrirheit fyrir leik dagsins í Hertz-hellinum. Heimamenn virtust ekki geta klikkað á skoti fyrstu mínútur leiksins og komust Breiðhyltingar í 14-0. Gestirnir virtust algerlega rotaðir en með innkomu Justin Shouse fór Garðabæjarvélin að malla hægt og rólega. Eftir innkomu Shouse náðu Stjörnumenn að jafna leikinn í fyrsta leikhluta, 21-21. Eftir hörku annan leikhluta var staðan svo jöfn í hálfleik 40-40. Gestirnir komu inn í seinni hálfleik með offorsi og náðu mest tíu stiga forystu í þriðja leikhluta, en í þeim fjórða náðu ÍR-ingar nokkrum mikilvægum stoppum í vörninni og komust einu stigi yfir, 72-71, þegar þrjár mínútur voru eftir. Þá kikkaði reynsla Stjörnumanna hins vegar inn og skoruðu Garðbæingar sjö næstu stig. Eftir það var brekkan einfaldlega of brött fyrir ÍR-inga og fara Garðbæingar því heim með 2-0 forystu í einvígi liðanna.

 

Lykillinn

Annan leikinn í röð sprungu ÍR-ingar einfaldlega á limminu eftir að þeir höfðu náð eins stigs forystu skömmu fyrir leikslok. Svo virðist vera sem heimamenn hafi einfaldlega yfirhólkast eftir að þeir komust yfir því skömmu eftir það fékk Quincy Hankins-Cole sína fimmtu villu. Eftir útilokun Quincy gengu Stjörnumenn á lagið og uppskáru glæsilegan sigur. Sigurinn var sérstaklega glæsilegur í ljósi þess að Stjörnumenn grófu sér djúpa holu í byrjun eftir að hafa lent 14-0 undir.

 

Hetjan

Það er ekki spurning að hetjan í þessu einvígi hingað til er Justin Shouse. Eftir langa fjarveru sem mikið hefur verið fjallað um hefur hinn magnaði Shouse komið eins og stormsveipur inn í lið Stjörnunnar og skín leikgleðin af honum. Shouse skoraði 19 stig fyrir gestina en þar af skoraði hann úr fjórum af fimm þriggja stiga skotum sínum. Marvin Valdimarsson átti líka flottan leik í dag og kveikti oft í netinu þegar ÍR-ingar gerðu sig líklega í seinni hálfleik.

 

Tölfræðin

Fimm leikmenn Stjörnunnar skoruðu yfir 10 stig í leiknum, en þeirra stigahæstur var Justin Shouse með 19 stig. Jöfn stigaskorun gestanna.

 

 

Framhaldið

Stjörnumenn geta klárað einvígið með hinum alræmda sópi næsta miðvikudag þegar ÍR-ingar mæta aftur í Ásgarð.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir

 

Viðtöl:

 

Fréttir
- Auglýsing -