spot_img
HomeFréttirSterkur útisigur Njarðvíkur á Haukum

Sterkur útisigur Njarðvíkur á Haukum

Liðin í fjórða og sjötta sæti mættust að Ásvöllum í Hafnarfirði í tíundu umferð Dominos deildar karla. Njarðvík mætti án Marquise Simmons en Njarðvík sleit samning hans við félagið á dögunum, áhugaverðara var að hann var í stúkunni í dag að horfa á. Haukar voru fullmannaðir og klárir í slaginn. Fyrirfram mátti búast við spennuleik en Njarðvík var ekki á því máli og náði í góðan úti sigur.

 

Þeir grænklæddu voru margfald sterkari í upphafi leiks og komust stax í 9-0. Það var hreinlega eins og leikmenn Hauka hefðu ekki komið útúr búningsklefum í byrjun því þeir voru andlega fjarverandi fyrstu fimm mínútur leiksins. Heimamenn náðu þó að saxa á forskotið hægt og rólega, munurinn varð minnst tvö stig. Einungis þeir Haukur Óskars, Finnur Atli og Madison voru með stig í fyrsta leikhluta hjá Haukum og vantaði gríðarlega framlag frá fleiri leikmönnum. Njarðvík spilaði fína vörn og var Haukur Helgi frábær í fyrsta leikhluta. Staðan 16-20 eftir fyrsta leikhluta, Njarðvík í vil.

 

Haukar voru ekki lengi að ná forystunni í byrjun annars leikhluta en þeir settu fyrstu sex stig leikhlutans. Kári, Emil, Hjálmar og Kristinn fóru að leggja í púkk og hlutirnir fóru að ganga betur hjá Hafnfirðingum. Kári Jónsson fékk hinsvegar sína þriðju villu þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og var því kominn í mikil villuvandræði. Við það gekk Njarðvík aftur á lagið og komst sex stigum yfir þegar flautað var til hálfleiks.

Sóknarleikur Hauka var tilviljanakenndur og seigur í fyrri hálfleik en varnarleikur Njarðvíkur ýtti þeim ítrekað í erfið skot, sem sjá má best á 32% skotnýtingu Hauka í hálfleik. Njarðvík var skynsamari í sínum aðgerðum auk þess sem Haukur Helgi 18 stig, 6 fráköst og fjórar stoðsendingar í hálfleik.

 

Ferðirnar úr búningsklefanum virtist fara illa í Hauka í dag því þeir komu jafn hauslausir til leiks í seinni hálfleik eins og í þeim fyrri. Forysta Njarðvíkur komst í ellefu stig í byrjun seinni hálfleiks og lýst var eftir þeim Emil Barja, Kára Jóns og Stephen Madison sem voru allt að því týndir á þessum tímapunkti. Haukar náðu að minnka muninn en Maciej Baginski mætti þá með tvær risastórar þriggja stiga körfur og hélt muninum í sex stigum. Oft var eins og Hauka langaði hreinlega ekki til að ná Njarðvík, því þegar þeir voru í tækifæri töpuðu þeir boltanum klaufalega eða tóku vondar sóknir. Óskynsemin lak af þeim og mátti þeir í raun prísa sig sæla að munurinn var ekki meiri en sex stig þegar þriðja leikhluta lauk.

Það skal ekki tekið af Njarðvík að varnarleikur þeirra var frábær og þeir komu Haukum ítrekað í vandræði. Fjórði leikhlutivar engin undantekning á því, Njarðvík hafði svör við öllum áhlaupum heimamanna og setti stór skot hinu megin. Gestunum tókst samt sem áður aldrei að slíta Hauka frá sér sem varð til þess að áhlaup Hauka þegar tvær mínútur voru eftir var nóg til að búa til leik. Það var hinsvegar að lokum of lítið og seint því Njarðvík hafði góðan útisigur 73-79 á Haukum.

 

Haukur Helgi Pálsson var besti leikmaður vallarins í dag, með 30 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Einnig var Maciej Baginski góður en hann steig upp á mikilvægum augnablikum. Auk þess er vert að nefnast á innkomu  Snjólfs Marels í þriðja leikhluta, 17 ára strákur með gríðalega baráttu og elju, til hreinnar fyrirmyndar.

Finnur Atli var bestur heimamanna með 16 stig en þeir Emil og Haukur voru einnig ágætir. Stephen Madison skilaði 14 stigum og 11 fráköstum en var einnig með sex tapaða bolta og 29% skotnýtingu sem er algjörlega óviðunandi.

Gríðarlega mikilvægur sigur Njarðvíkur sem jafnar þar með Hauka að stigum í fjórða sæti deildarinnar. Haukar misstu hinsvegar þarna af gullnu tækifæri til að slíta sig frá liðinum í 5-9 sæti en mistókst það gjörsamlega. Það var hreinlega á tímabili eins og heimamenn væru fastir í öðrum gír en fundu kúplinguna ekki til að fara í hærri gír fyrr en alltof seint. Allt hrós til Njarðvíkur samt sem áður, þeir voru skynsamir og spiluðu á sínum styrkleikum. Varnarleikurinn var frábær nánast allan leikinn þar sem áherslubreytingar vegna fjarveru Marquis Simmons virðist gera þeim gott.

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Axel Finnur Gíslason

 

 

Fréttir
- Auglýsing -