Í kvöld báru Þórsarar sigurorð af Skallagrími, 103-81 þegar liðin mættust í sjöttu umferð 1. deildar karla í körfuknattleik. Jafnt var með liðum í fyrri hálfleik, en gestirnir frá Borganesi voru þó einu skrefi á undan heimamönnum og leiddu leikinn með fimm stigum í hálfleik. Þórsarar komu vel stemmdir til leiks í þeim síðari og með góðum varnarleik náðu þeir að byggja upp gott forskot sem þeir létu ekki af hendi og fóru að lokum með 22 stiga sigur af hólmi, 103-81.
Leikurinn byrjaði nokkuð rólega en liðin skiptust á að skora og jafnt var á tölum um miðjan fjórðunginn. Gestirnir áttu góðan sprett um miðjan fjórðunginn þar sem þeir skoruðu sex stig í röð og breyttu stöðunni úr 12-11 í 12-17. Gestirnir héldu forskotinu út leikhlutann og leiddu með fimm stigum eftir fjórðunginn, 23-28. Þórsarar byrjuðu annan fjórðung vel og náðu fljótt 6-1 spretti. Hins vegar voru heimamenn að missa knöttinn of mikið og stigu ekki nógu vel út sem varð til þess að gestirnir voru ávallt skrefinu á undan. Gestirnir nýttu skot sín afar vel þar sem Halldór Gunnar Jónsson var að hitta vel utan að velli sem og Darrell Flake var sterkur innan teigs. Þrátt fyrir að heimamenn væru ekki að spila vel í fyrri hálfleik, leiddu gestirnir einungis leikinn með einu stigi þegar liðin gengu til búningsklefa, 43-44.
Þórsarar mættu vel stemmdir til leiks í síðari hálfleik og greinilegt að orð Konrad Tota þjálfara í hálfleik hafi skilað sér vel til leikmanna. Þórsarar fóru að spila fína vörn sem skiluðu þeim nokkrum auðveldum körfum. Góð hittni Hafþórs Inga hélt þó gestunum á floti á tímabili. Hins vegar þéttist vörn heimamanna þegar liða tók á fjórðunginn og gestirnir áttu fá svör. Wesley Hsu setti niður tvo þrista undir lok fjórðungsins og þá voru heimamenn búnir að ná 11 stiga forskoti, 75-64 fyrir fjórða og síðasta fjórðunginn.
Heimamenn héldu uppteknum hætti í síðasta leikhlutanum. Vörn heimamanna var mjög góð, þeir hirtu nánast öll fráköst sem í boði voru. Þórsarar bættu við forskot sitt jafnt og þétt þó svo að gestirnir reyndu allt sem þeir gátu til að minnka muninn. Konrad Tota þjálfari Þórs gat því leyft sér á síðustu mínútum leiksins að leyfa minni spámönnum að spreyta sig. Heimamenn héldu haus og lönduðu góðum 103-81 sigri.
Atkvæðamestir hjá Þór – Konrad Tota 35 stig, Ólafur Torfason 21 stig (18 fráköst, 7 stoðsendingar), Wesley Hsu 21 stig, Óðinn Ásgeirsson 14 (12 fráköst), Björgvin Jóhannesson 6, Stefán Karel Torfason 4 og Benedikt Pálsson 2
Atkvæðamestir hjá Skallagrím – Darrell Flake 24 stig (11 fráköst), Hafþór Ingi Gunnarsson 24, Halldór Gunnar Jónsson 18, Arnar Hrafn Snorrason 5, Guðjón Jónsson 4, Ragnar Ólafsson 2, Sigurður Gunnarsson 2 og Birgir Sverrisson 2
Umfjöllun: Sölmundur Karl Pálsson