Stefán Karel verður líklega frá leik í 6-8 vikur vegna höfuðmeiðsla sem hann varð fyrir í gær í sigrinum á Snæfell.
Eins og Karfan.is greindi frá í gær þurfti Stefán Karel að fara með sjúkrabíl úr Seljaskóla eftir leik í gær en hann lenti í samstuði við Geir Elías Úlfur Helgason hjá Snæfell.
Er Karfan.is hafði samband við hann í dag var kominn heim af sjúkrahúsi en hann var þar undir eftirliti í nótt. Stefán hlaut mikinn heilahristing við samstuðið og var því mjög slappur í dag.
Stefán Karel sagði að þetta hefði verið sinn fjórði heilahristingur og fyrir vikið er batinn hægari enn áður. Hann hafði ekki fengið klárt mat á hversu lengi hann verður frá. Líklegt er að 6-8 vikur séu í að hann mæti aftur á parketið en hann sagði að hann ætlaði að gera allt til að það verði ekki svo langur tími.
ÍR mætir Stjörnunni næsta fimmtudag í Ásgarði og klárt að Stefán Karel verður ekki með í þeim leik. Stefán átti fínan leik fyrir liðið gegn Snæfell og því gríðarleg blóðtaka fyrir liðið að missa hann í þennan tíma.