LIU og St. Francis Brooklyn lönduðu sigrum í nótt í bandaríska háskólaboltanum en Kristófer Acox og félagar máttu fella sig við ósigur á heimavelli eftir framlengdan leik í SoCon riðlinum.
Furman 71-74 Chattanooga
Kristófer Acox og félagar í Furman háskólanum urðu að fella sig við ósigur í framlengdum leik í nótt. Chattanooga fór þá með 71-74 útisigur af hólmi þar sem Kristófer skoraði 3 stig og tók 9 fráköst. Furman er í 6. sæti SoCon riðilsins með 4 sigra og 7 tapleiki en sigur í nótt hefði verið sterkur þar sem Chattanooga er í 2. sæti riðilsins.
Central Connecticut 81-90 St. Francis Brooklyn
Gunnar Ólafsson lék í 6 mínútur hjá St. Francis í nótt en komst ekki á blað í stigaskorinu. Hann var með eitt frákast og eina stoðsendingu á þessum tíma en stigahæstur í liði St. Francis var Jalen Cannon með 35 stig. St. Francis Brooklyn eru sem fyrr á toppi NEC riðilsins með 9 sigra og 2 tapleiki en liðið hefur unnið alls 15 leiki á tíambilinu og tapað 9.
LIU 72 – 65 Robert Morris
Martin Hermannsson var stigahæstur í þessum góða sigri LIU með 17 stig, 3 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 3 fráköst á 34 mínútum. Elvar Már Friðriksson bætti við 2 stigum og 7 stoðsendingum. Með sigrinum er LIU í 7. sæti NEC riðilsins með 5 sigra og 6 tapleiki en þeir voru að leggja Robert Morris skólann sem er í 3.-4. sæti riðilsins.