15:27
{mosimage}
(Ginobili var sterkur í liði Spurs í nótt með 26 stig)
Tveir leikir fóru fram í undanúrslitum NBA deildarinnar í nótt þar sem New Jersey Nets minnkuðu muninn í 3-2 gegn Cleveland Cavaliers og San Antonio Spurs komust í 3-2 gegn Phoenix Suns. Spurs og Cavs þurfa því aðeins einn sigur til viðbótar til að tryggja sig í úrslit á austur- og vesturströndinni.
Jason Kidd gerði 20 stig, tók 9 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í liði Nets í nótt og næstur honum kom Richard Jefferson með 15 stig. Vince Carter hafði fremur hægt um sig í stigaskorinu en hann gerði 12 stig og gaf 10 stoðsendingar. LeBron James var sá eini með lífsmarki í Cleveland liðinu en hann gerði 20 stig, tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Lokatölur leiksins voru 83-72 Nets í vil.
Bruce Bowen fékk uppreisn æru í nótt en liðsmenn Phoenix og fleiri hafa haft það á orði að hann væri ,,dirty player” eða fauti og hefur Bowen setið undir nokkrum árásum fyrir það. Bowen svaraði fyrir sig í nótt með því að setja niður þriggja stiga körfu þegar 36 sekúndur voru til leiksloka og jafnaði hann metin í 85-85 og Spurs reyndust síðar sterkari á lokasprettinum og tryggðu sér 85-88 sigur.
Manu Ginobili var stigahæstur hjá Spurs í nótt með 26 stig og 10 fráköst en næstur honum kom Tim Duncan með 21 stig og 12 fráköst. Hjá Suns var Shawn Marion sterkur í fjarveru Stoudemire en Marion gerði 24 stig og tók 17 fráköst. Steve Nash var með 19 stig hjá Suns og 12 stoðsendingar.
Eins og fyrr greinir þá dugir það fyrir Cavs og Spurs að vinna næsta leik en þá eru liðin komin áfram í úrslitarimmur austur- og vesturstrandarinnar.
Í nótt mætast svo Detroit Pistons og Chicago Bulls í United Center í Chicago. Pistons leiða einvígið 3-2 og komast í úrslit austurstrandar ef þeir leggja Bulls að velli í nótt. Ef Bulls hefur sigur kemur til oddaleiks sem fram fer á heimavelli Pistons.
Mynd: AP