11:41
{mosimage}
(Duncan var kátur í nótt enda ærin ástæða til)
San Antonio Spurs eru komnir í úrslit NBA deildarinnar eftir 4-1 sigur á Utah Jazz í úrslitum Vesturstrandarinnar. Fimmti leikur liðanna fór fram í nótt þar sem Spurs höfðu þægilegan 109-84 sigur. Spurs munu því mæta Cleveland eða Detriot í úrslitum NBA deildarinnar en staðan á Austurströndinni er jöfn, 2-2 og þarf því í það minnsta tvo leiki til viðbótar til að skera úr um hvort liðið mætir Spurs í úrslitum.
Óhætt er að segja að Spurs hafi gert úti um leikinn strax í fyrsta leikhluta í nótt en staðan að honum loknum var 34-15 Spurs í vil og leiddu þeir allan leikinn. Félagarnir Tim Duncan og Tony Parker gerðu báðir 21 stig í leiknum í nótt en liðsmönnum Utah bráðvantaði einhvern til að taka af skarið en úr því varð ekki.
Carlos Boozer sem hefur átt ljómandi góða úrslitakeppni var aðeins með 9 stig í nótt en hann tók engu að síður 12 fráköst. Stigahæstur í liði Jazz var Andrei Kirilenko með 13 stig.
Mynd: AP