spot_img
HomeFréttirSpurs geta klárað dæmið í kvöld

Spurs geta klárað dæmið í kvöld

San Antonio Spurs geta tryggt sér fimmta meistaratitilinn sinn á aðeins 15 árum í kvöld. Miami Heat hins vegar þurfa að berjast fyrir lífi sínu í þessari keppni. Ekkert lið í sögu deildarinnar hefur tekist að rífa sig upp og skríða upp úr 3-1 holu í úrslitum til að sigra 3-4. 
 
Leikurinn í kvöld fer fram í San Antonio þar sem búið er að breyta keppnisfyrirkomulagi úrslitanna í 2-2-1-1-1 úr 2-3-2 fyrirkomulaginu sem hafði verið síðan 1984. 
 
Spurs liðið hefur verið að bruna í gegnum síðustu tvo leiki á fullu gasi. Eitt allra besta varnarlið deildarinnar, Miami Heat ræður ekkert við ógnirnar sem koma úr öllum áttum. Allir eru að leggja lóð sitt á vogaskálarnar. Boris Diaw kom inn í byrjunarliðið í leik þrjú og sóknarleikur liðsins umbreyttist. Popovich hafði kvartað yfir því að boltinn væri að “klístrast við þá” eða ekki að hreyfast nóg í sókninni. Það er lykillinn að sóknarleik Spurs. Þeir eru ekki með skriðdreka eins og LeBron James sem getur tekið yfir leiki og unnið upp á eigin spýtur. Liðsheild, boltahreyfing og gott rými milli leikmanna er það sem gerir sóknarleik Spurs þann besta sem deildin hefur upp á að bjóða.
 
Diaw hefur verið frábær fyrir Spurs. Tim Duncan er eins og gott rauðvín sem verður bara betra með aldrinum. Tony Parker blés á meiðslasögurnar og hefur spilað vel. Danny Green og Belinelli eru að setja niður skotin sín. Tiago Splitter er límið í sókninni því hann hefur oftar en ekki átt haug af stoðsendingum úr teignum á opna menn. Einhverra hluta vegna eru Heat að tvídekka hann þó hann hafi mjög takmörkuð sóknarvopn á blokkinni. Patty Mills hefur komið mest á óvart í þessari keppni. Öflugur í vörn, spilar leikstjórnandan af öryggi og er að sökkva stóru skotunum fyrir utan þriggja.
 
Miami Heat hafa valdið gríðarlegum vonbrigðum. Virðast vera orðnir þreyttir og skal engan undra spilandi þessa gildru-vörn (e. trapping defence) á lið eins og San Antonio Spurs. Boltahreyfing er kryptonítið fyrir gildru-vörn. Dwyane Wade er alveg úti að skíta og Chris Bosh hefur farið huldu höfði í síðustu tveimur leikjum. Rashard Lewis hefur verið drjúgur í sóknarleiknum en hann er vita gagnslaus í vörn á móti Boris Diaw. 
 
Tapi Miami Heat þessari viðureign verður LeBron James ekki um að kenna þar. Hann hefur spilað vel þrátt fyrir krampaleikinn umdeilda. James hefur einn Heat manna verið með lífsmarki í þessum tveimur síðust leikjum. Nú stendur hann frammi fyrir því að vinna þennan leik eða fara heim í frí.  Hann VERÐUR að vinna þennan leik sjálfur. Hann getur ekki treyst á Bosh í horninu eða Wade þegar mest liggur undir. Hann VERÐUR að klára þetta sjálfur. Hann er besti körfuboltaleikmaður jarðríkis og hann VERÐUR að sýna það í kvöld.
 
Það er hreint og klárt DUGA EÐA DREPAST fyrir Miami Heat í kvöld. Það er alltaf eitthvað fyrst og Miami Heat gætu allt eins orðið fyrsta liðið til að snúa við 1-3 stöðu sér í hag. En það gerist ekki að sjáflu sér.
 
Leikurinn hefst á miðnætti í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -