Við birtum nú spána fyrir úrvalsdeild kvenna 2011-2012. Karfan.is fékk boltaspekinga víðsvegar um landið til að setja niður sína spá og setja í efsta sæti það lið sem þeir teldu að yrðu Íslandsmeistarar. Útkoman varð sú að Keflavík kom út á toppnum með 133 stig og því spáð Íslandsmeistaratitlinum og Fjölniskonum var spáð falli.
Keflavík fékk 133 stig í atkvæðagreiðslunni en tæpara gat það nú vart staðið þar sem KR var spáð 2. sætinu með 132 stig. Fjölnir rak lestina með 43 stig en samkvæmt spá Karfan.is í ár verða það Keflavík, KR, Haukar og Valur sem skipa munu úrslitakeppnina en eftir síðasta Körfuknattleiksþing KKÍ eru aðeins fjögur lið sem komast í úrslitakeppnina. Í fyrirkomulagi síðasta tímabils voru sex lið sem komust í úrslitakeppni, tvö efstu sátu hjá en liðin í sætum 3-6 léku fyrstu umferð áður en blásið var til undanúrslita.
Spá Karfan.is í Iceland Express deild kvenna 2011-2012:
1. sæti Keflavík – 133
2. sæti KR – 132
3. sæti Haukar – 114
4. sæti Valur – 92
5. sæti Njarðvík – 87
6. sæti Hamar – 70
7. sæti Snæfell – 68
8. sæti Fjölnir – 43
8. sæti – Fjölnir
Fjölnir féll úr úrvalsdeild að lokinni síðustu leiktíð en tóku áframhaldandi sæti í úrvalsdeild þegar Grindvíkingar skráðu lið sitt úr keppni. Blóðtaka liðsins fólst í brotthvarfi Bergþóru Tómasdóttur sem er í námi við miðskóla í Bandaríkjunum en hún var valin besti ungi leikmaður úrvalsdeildarinnar á lokahófi KKÍ að lokinni síðustu leiktíð. Spekingar Karfan.is spá Fjölni falli þetta tímabilið. Mikið mun mæða Heiðrúnu Ríkharðsdóttur, Bergdísi Ragnarsdóttur og Evu Maríu Emilsdóttir þetta tímabilið.
7. sæti – Snæfell
Hólmarar hafna í 7. sæti samkvæmt spá Karfan.is en Snæfell lék í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í fyrra þar sem liðið lá gegn KR. Í sumar gekk Hildur Sigurðardóttir til liðs við Snæfell frá KR og mun vafalítið sanna sig sem mikill og góður hvalreki á fjörur Hólmara. Þá mun Sara Sædal Andrésdóttir vera komin aftur á kreik og þar fer dísilvél sem ekkert lið ætti að vera án. Margir ungir og sterkir leikmenn eru í röðum Snæfells sem eiga vafalítið eftir að láta fyrir sér finna í vetur en þar má t.d. nefna Berglindi Gunnarsdóttur en reynsluboltarnir Hildur, Alda Leif Jónsdóttir og Sara fá það verðuga verkefni að leiða hópinn áfram þetta tímabilið.
6. sæti – Hamar
Hvergerðingar hafa tekið gríðarlegum breytingum fyrir þetta tímabil, Lárus Jónsson tók við skipstjórastöðunni af Ágústi Björgvinssyni og þær Kristrún Sigurjónsdóttir, Guðbjörg Sverrisdóttir, Þórunn Bjarnadóttir og Fanney Lind Guðmundsdóttir sögðu allar skilið við liðið í Blómabænum. Fyrirliðinn Íris Ásgeirsdóttir verður svo ekki með Hvergerðingum fyrir áramót þar sem hún verður stödd erlendis og því komið kjörið tækifæri fyrir yngri leikmenn félagsins til að láta vel að sér kveða.
5. sæti – Njarðvík
Silfurlið síðasta tímabils er sett í fimmta sæti þetta tímabilið. Njarðvíkingar þurfa veglegt framlag frá Ólöfu Helgu Pálsdóttur í vetur en í sumar barst þeim liðsauki, tvær stoðsendingar úr Grindavík í þeim Petrúnellu Skúladóttur og Hörpu Hallgrímsdóttur og svo gekk Salbjörg Sævarsdóttir til liðs við félagið frá Laugdælum. Njarðvíkingar hafa á að skipa tiltölulega ungu liði en Sverrir Þór Sverrisson stýrði hópnum gegn öllum spám og inn í úrslit Íslandsmótsins þar sem liðið vann til silfurverðlauna á síðustu leiktíð.
4. sæti – Valur
Ágúst Björgvinsson tók við Valskonum í sumar og þegar þær fregnir spurðust út fjölgaði nafntoguðum leikmönnum að Hlíðarenda. Við hóp nýliðanna bættust þær Kristrún Sigurjónsdóttir, Guðbjörg Sverrisdóttir og María Ben Erlingsdóttir samdi við Valskonur en hún hefur síðustu fjögur ár leikið í bandaríska háskólaboltanum. Blikinn ungi Hallveig Jónsdóttir er einnig komin í raðir Valskvenna en sjálf Hlíðarendadrottningin, Signý Hermannsdóttir, hefur einnig ákveðið að snúa heim og leika með Val á nýjan leik. Spekingar Karfan.is spá Valskonum í 4. sæti en með þennan hóp eru þær til alls líklegar.
3. sæti – Haukar
Besta liði undirbúningstímabilsins er spáð 3. sæti í ár. Jence Rhoads hefur vakið verðskuldaða athygli með Haukum sem um daginn urðu Lengjubikarmeistarar eftir spennusigur á Keflavík. Jence mun fara fremst í flokki í Haukaliðinu í vetur en mikið mun einnig mæða á leikmönnum eins og Írisi Sverrisdóttur og Gunnhildi Gunnarsdóttur. Þá eiga Haukar fjölmarga unga og efnilega leikmenn sem fá að spreyta sig og ber þar að nefna leikmenn á borð við Margréti Rósu Hálfdánardóttur. Blóðtaka liðsins í sumar fólst í brotthvarfi Rögnu Margrétar Brynjarsdóttir en miðherjinn er að spila í Svíþjóð í vetur en Ragna var valin í úrvalslið Iceland Express deildarinnar á lokahófi KKÍ 2011.
2. sæti – KR
KR er spáð öðru sætinu í ár, liðið fékk aðeins einu stigi minna en Keflavík í atkvæðagreiðslunni og þó liðið hafi orðið fyrir blóðtöku í sumar með brotthvarfi Hildar Sigurðardóttur og Guðrúnar Gróu Þorsteinsdóttur þá voru engir aukvisar sem bættust í hópinn. Bryndís Guðmundsdóttir sagði skilið við Keflavík og hélt í Vesturbæinn og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir kom til KR að nýju eftir síðasta tímabil í Frakklandi. Hafnfirðingurinn Rannveig Ólafsdóttir kemur síðan til liðsins beint úr miðskóla frá Bandaríkjunum. Þessir þrír leikmenn ásamt Margréti Köru Sturludóttur munu bera hitann og þungann í leik KR í vetur. Þá er kominn nýr maður í brúnna, Hrafn Kristjánsson kveður liðið að sinni og við stjórn KR tekur Ari Gunnarsson.
1. sæti – Keflavík
Ríkjandi Íslandsmeisturum Keflavíkur er spáð titlinum að nýju. Hópurinn er ekki ósvipaður þeim og var í fyrra en vissulega stórt skarð höggvið með brotthvarfi Bryndísar Guðmundsdóttur. Falur Harðarson tók við þjálfarastöðu liðsins af Jóni Halldóri Eðvaldssyni og fær það verkefni að innleiða í meistaraflokkinn þá fjölmörgu ungu leikmenn sem valtað hafa yfir yngriflokkakeppnirnar síðustu ár. Birna Valgarðsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir taka að sér leiðtogahlutverkin en fróðlegt verður að sjá hvernig ungu Keflvíkingunum mun ganga að standa í eigin fætur í úrvalsdeild og þá má helst nefna Söru Rún Hinriksdóttur sem er á meðal efnilegustu kvennaleikmönnum þjóðarinnar. Ekki skemmir svo fyrir að Keflavík fékk til liðs við sig Jaleesa Butler sem fór mikinn með Hamarskonum á síðustu leiktíð.
Fyrsta umferð – 12. október
Fjölnir-Keflavík
Valur-Snæfell
Haukar-Njarðvík
KR-Hamar
Mynd/ [email protected] – Ríkjandi Íslandsmeisturum Keflavíkur er spáð titlinum í ár.