Við birtum nú spána fyrir úrvalsdeild karla 2011-2012. Karfan.is fékk boltaspekinga víðsvegar um landið til að setja niður sína spá og setja í efsta sæti það lið sem þeir teldu að yrðu Íslandsmeistarar. Útkoman varð sú að Stjarnan í Garðabæ mun vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil samkvæmt spekingunum og það komi í hlut nýliða Vals og Tindastóls að falla.
Stjarnan fékk 154 stig í kosningunni en ekki langt undan komu ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar KR með 148 stig. Eins og fyrr segir kemur það í hlut Tindastóls og Valsmanna að falla úr deildinni og Fjölnir og Þór Þorlákshöfn munu missa af úrslitakeppninni.
Spá Karfan.is í Iceland Express deild karla 2011-2012:
1. sæti Stjarnan – 154
2. sæti KR – 148
3. sæti Grindavík – 139
4. sæti Snæfell – 137
5. sæti Keflavík – 107
6. sæti ÍR – 94
7. sæti Haukar – 67
8. sæti Njarðvík – 55
9. sæti Þór Þorlákshöfn – 51
10. sæti Fjölnir – 46
11. sæti Tindastóll – 44
12. sæti Valur – 21
12. sæti – Valur
Valsmenn leika nú í úrvalsdeild í fyrsta sinn í sjö ár eftir mikla þrautargöngu í 1. deild karla. Félagið lét Yngva Gunnlaugsson fara á dögunum og Ágúst Björgvinsson tók við þjálfun liðsins. Þrír Bandaríkjamenn verða á mála hjá liðinu en einn þeirra, Austin Magnus Bracey, er með íslenskt vegabréf. Þá er Igor Tratnik einnig á mála hjá félaginu. Miklar breytingar urðu á leikmannahópnum í sumar og mikil blóðtaka fyrir Val að sjá á eftir Herði Helga Hreiðarssyni til Skallagríms í 1. deild þar sem Hörður er nú við nám á Bifröst.
11. sæti – Tindastóll
Borce Ilievski er við stjórnartaumana í nýparketlögðu Síkinu en Stólarnir fengu góða sendingu frá Keflavík í sumar þegar Þröstur Leó Jóhannsson hélt norður í Skagafjörð. Í fyrra kom Svavar Birgisson inn í liðið með seinni skipunum og mikilvægt fyrir Stólana að hafa hann áfram en mikið mun mæða á honum, Helga Rafni Viggóssyni og Friðriki Hreinssyni. Stólarnir eru aldrei auðveldir heim að sækja og ætla sér vísast eins og Valsmenn að blása niður þessa spá.
10. sæti – Fjölnir
Ægir Þór Steinarsson verður með Fjölnismönnum fyrstu mótsleikina en þegar er Tómas Heiðar Tómasson horfinn á braut til náms í Bandaríkjunum. Mikil blóðtaka fyrir Fjölnismenn sem þó hafa fengið til sín Daða Berg Grétarsson og Árna Ragnarsson. Sindri Kárason og Jón Sverrisson munu þétta teiginn ásamt Nathan Walkup en hópurinn er ungur og þótti standa sig með miklum ágætum í deildinni á síðustu leiktíð undir stjórn Örvars Kristjánssonar þrátt fyrir að liðið hafi ekki náð inn í úrslitakeppnina.
9. sæti – Þór Þorlákshöfn
Þórsarar rúlluðu upp 1. deildinni á síðasta tímabili undir stjórn Benedikts Guðmundssonar. Sumarið færði Þórsurum þá Darra Hilmarsson og Guðmund Jónsson og þeir eru betri en enginn þegar í harðbakka slær. Bræðurnir Baldur og Þorsteinn Ragnarssynir þurfa að vera upp á sitt besta í vetur og fróðlegt verður að sjá hvernig Grétar Erlendsson muni spjara sig í úrvalsdeildinni á nýjan leik en þar fer snjall leikmaður á blokkinni.
8. sæti – Njarðvík
Ungmennafélag Njarðvíkur eru orð að sönnu þetta tímabilið, fæstir liðsmenn hópsins hafa náð 20 ára aldri og nýráðinn liðsmaður félagsins, Cameron Echols er þrítugur og sannkallaður aldursforseti hópsins. Einar Árni Jóhannsson og Friðrik Pétur Ragnarsson stýra liðinu en þeir tóku við hópnum þegar vel var liðið á síðasta tímabil. Mikið mun mæða á Rúnari Inga Erlingssyni, Hirti Hrafni Einarssyni og Ólafi Jónssyni en þess má þó geta að Elvar Friðriksson hefur vakið verðskuldaða athygli á undirbúningstímabilinu. Blóðtaka liðsins er engin smásmíði þetta tímabilið, Friðrik Stefánsson og Páll Kristinsson eru hættir, Jóhann Árni Ólafsson fór í Grindavík, Egill Jónsson í pásu og Guðmundur Jónsson í Þór Þorlákshöfn.
7. sæti – Haukar
Sævar Harladsson leiðir Haukana í vetur, einn aldursforseta liðsins og leikreyndur með næmt auga fyrir stoðsendingum. Ekki verða byrðarnar síðri á herðum Hauks Óskarssonar, Emils Barja og Arnar Sigurðarsonar, þrír sterkir ungir leikmenn sem í bland við jaxla á borð við Svein Ómar Sveinsson og Sævar geta valdið miklum usla gegn öllum liðum deildarinnar. Pétur Ingvarsson er sem fyrr við stjórnarataumana og stýrði Haukum inn í úrslitakeppnina í fyrra þar sem liðið féll út í fyrstu umferð gegn Snæfell.
6. sæti – ÍR
Gunnar Sverrisson og lærisveinar í ÍR eru settir í sjötta sæti. Eitthvað segir okkur að sigursælasta félagið í íslenskum körfuknattleik ætli sér annað og meira þetta tímabilið. Sumarið færði ÍR-ingum Ellert Arnarson og í bland við Níels Dungal, Sveinbjörn Claessen, Nemanja Sovic og Kristinn Jónasson svo ekki sé nú talað um höfuðpaurinn James Bartolotta ættu ÍR-ingar að vera illir viðureignar í vetur. Hr. ÍR, Eiríkur Önundarson, hefur verið í borgaralegum klæðum á bekknum hjá ÍR á undirbúningstímabilinu en hér með er skorað á kappann að taka eitt tímabil til viðbótar, eilífðarungmenni hafa ekkert að gera með að setja skóna á hilluna.
5. sæti – Keflavík
Blóðtaka Keflavíkur í sumar var ansi svæsin, Gunnar Einarsson er hættur, Sigurður Gunnar Þorsteinsson fór í Grindavík, Hörður Axel Vilhjálmsson fór í atvinnumennsku og Jón N. Hafsteinsson hefur lítið sést í Toyota-höllinni á undirbúningstímabilinu. Hvað verður með Jón skal ósagt látið en Keflvíkingar eru með mikið breytt lið. Sumarið færði þeim Val Orra Valsson frá FSu og Arnar Freyr Jónsson er kominn heim og að stíga upp úr meiðslum en skellti samt 28 stigum yfir Stjörnuna í Reykjanesmótinu á dögunum. Keflvíkingar eru nokkuð spurningamerki þetta tímabilið en Jarryd Cole mun ógna í teignum og Magnús Þór Gunnarsson fyrir utan svo það er allt opið hjá liðinu sem hefur verið afksrifað oftar en skuldir auðmanna. Þessar afskriftir á Keflavíkurliðinu hafa oftar en ekki verið vatn á millu liðsmanna félagsins og hafa þeir tætt í sig allnokkrar spár.
4. sæti – Snæfell
Hólmarar sáu á eftir Emil Þór Jóhannssyni í KR þetta sumarið en hr. Borgarnes, Hafþór Ingi Gunnarsson, söðlaði um og gekk í raðir Hólmara. Fyrir hittir hann Jón Ólaf Jónsson og Pálma Frey Sigurgeirsson og með norðlenska nautið Ólaf Torfason í farteskinu verður það ekkert grín að ná í tvö stig frá Inga Þór og félögum. Kristján Pétur Andrésson kvaddi einnig Snæfell í sumar og gekk í raðir KFÍ og Atli Rafn Hreinsson hélt í höfuðstað Norðurlands, Akureyri, og er þar við nám.
3. sæti – Grindavík
Gulir hafa ekki þótt nægilega sterkir miðað við ,,pappíra“ á undirbúningstímabilinu en Grindvíkingar hafa verið án leikstjórnanda. Þeir sömdu þó við Giordan Watson sem vakti athygli með Njarðvíkingum undir lok síðasta tímabils. Sumarið færði gulum Jóhann Árna Ólafsson og Sigurð Gunnar Þorsteinsson en fyrir í Grindavík má finna sleggjurnar Ólaf Ólafsson, Þorleif Ólafsson, Ómar Sævarsson og Pál Axel Vilbergsson sem reyndar hefur ekkert verið með á undirbúningstímabilinu. Hér fer þó sterkur hópur sem vafalítið verður í toppbaráttunni í vetur undir stjórn Helga Jónasar Guðfinnssonar.
2. sæti – KR
Hrafn Kristjánsson situr með KR á Íslands- og bikarmeistaratitli og þarf að fínpússa saman nýja bakvarðasveit þar sem Pavel Ermolinski, Brynjar Þór Björnsson og Marcus Walker sömdu allir í sumar við erlend lið. Stórt skarð höggvið í lið KR-inga og þá hefur Fannar Ólafsson ekki tekið þátt í undirbúningi liðsins en hér verður ekki fullyrt um hvort kappinn sé búinn að leggja skóna á hilluna eða hvort hann ætli sér meira. Emil Þór Jóhannsson bættist í hóp KR í sumar frá Snæfell og fyrir hittir hann þá Finn Magnússon, Ágúst Angantýsson, Jón Orra Kristjánsson, Skarphéðinn Ingason og Ólaf Ægisson sem leiða munu liðið. Yngri menn eins og Martin Hermannsson og Kristófer Acox munu vafalítið fá að spreyta sig og fróðlegt að sjá hvernig þeim mun vegna.
1. sæti – Stjarnan
Stjarnan hafnaði í 2. sæti í fyrra eftir úrslitarimmu gegn KR og miðað við önnur lið deildarinnar hafa ekki orðið stórbrotnar breytingar, einhverjar þó. Daníel Guðni Guðmundsson er farinn til Svíþjóðar og Kjartan Atli Kjartansson tekinn við FSu á Selfossi. Þá hafa Garðbæingar endurheimt Sigurjón Lárusson og tvíburarnir Guðjón og Sigurjón því undir sama fána á nýjan leik og munu vafalítið hrella andstæðinga Stjörnunnar í vetur. Vopnaðir íslenskum ríkisborgararétt eru Jovan Zdravevski og Justin Shouse mættir til leiks á ný og Bandaríkjamaðurinn Keith Cothran hefur sýnt lipra takta á undirbúningstímabilinu. Marvin Valdimarsson og Fannar Helgason bætast svo við þessa upptalningu og ljóst að valinn maður er í hverju rúmi í Garðabæ þetta tímabilið. Hinn ungi og efnilegi Dagur Kár Jónsson hefur einnig fengið að spreyta sig undanfarið og fróðlegt að sjá hvernig honum mun vegna í deildinni á tímabilinu.
Mynd/ [email protected] – Reykjanesmeisturum Stjörnunnar er spáð Íslandsmeistaratitlinum þetta tímabilið.