spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaSpá fyrir Dominos deild kvenna – 3. sæti: Keflavík

Spá fyrir Dominos deild kvenna – 3. sæti: Keflavík

Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deildirnar er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem leikið hafa í Dominos deildunum eða þekkja vel til. Það styttist óðum í að Dominos deildin hefjist og því við hæfi að byrja að telja niður með því að spá í spilin.

Spáin heldur áfram og næst er það liðið í 3. sæti.

3. sæti – Keflavík

Sjaldan eða aldrei hefur lið í efstu deild misst jafn marga góða leikmenn og Keflavík gerði í sumar. Fjórar a landsliðskonur og besti erlendi leikmaður deildarinnar í fyrra yfirgáfu allar félagið. Það sem eftir situr eru nokkrir ungir, en reynslumiklir leikmenn sem munu drífa liðið áfram. Emelía, Þóranna, Katla, Irena ásamt Salbjörgu munu fara í broddi fylkingar fyrir annars yngri, efnilegum leikmönnum. Væntingarnar kannski ekki miklar fyrir þessu tímabili hjá Keflavík, en við búumst samt við þeim sterkum.

Komnar:

Jón Halldór Eðvaldsson (þjálfari)

Hörður Axel Vilhjálmsson (aðstoðarþjálfari)

Daniela Wallen frá Peli-Karhut (Finnlandi)

Farnar:

Jón Guðmunsson (þjálfari)

Birna Valgerður Benónýsdóttir til Arizona 

Embla Kristínardóttir óljóst

Erna Hákonardóttir – Með barni

Sara Hinriksdóttir – Meistaranám erlendis

María Jónsdóttir hætt

Brittany Dinkins til Los Leones (Chile)

Bryndís Guðmundsdóttir hætt

Mikilvægasti leikmaður:

Emelía Ósk Gunnarsdóttir var lestarstjóri Litlu Slátraranna sem unnu nokkuð óvænt bæði deild og bikar fyrir tveimur árum. Átti við erfið meiðsl að stríða á síðasta tímabili, en ef heil í vetur, er hún mikilvægasti leikmaður þessa liðs. Frábær á báðum endum vallarins og líkt og góðum leiðtoga sæmir, fer hún fram með fordæmi.

Fylgist með

Þóranna Kika Hodge Carr er tvítugur framherji sem hefur á síðustu árum, bæði með Keflavík, sem og yngri landsliðum sýnt að hún er einn efnilegasti leikmaður landsins. Átti við erfið meiðsl á síðasta tímabili, en virtist koma til baka úr þeim ágætlega. Verður fróðlegt að sjá hvort hún nær að skipa sér á stall með bestu leikmönnum deildarinnar í vetur. Við höfum trú á að það geti orðið.

Efnilegir leikmenn annars ófáir í þessu Keflavíkurliði. Verður mjög áhugavert að sjá hverjar þeirra það verða sem eigna sér stóra sviðið eftir að allar þessar mínútur urðu lausar í sumar.

Þakið:

Deildin er nokkuð þung á toppnum þetta tímabilið. Við sjáum Keflavík ekki fara ofar en í þetta þriðja sæti.

Gólfið:

Ef allt fer á versta veg, þá verður Keflavík í baráttu um fjórða, fimmta sætið. Missa þó ekki af úrslitakeppninni. Slíkt er og hefur verið ólíklegt í Keflavík.

Spá Körfunnar fyrir Dominos deild kvenna 2019/2020

  1. _________________
  2. _________________
  3. Keflavík
  4. Haukar
  5. Snæfell
  6. Grindavík
  7. Breiðablik
  8. Skallagrímur
Fréttir
- Auglýsing -