21:22
{mosimage}
(Sovic í háloftabaráttunni í kvöld)
Nemanja Sovic gerði 31 stig og tók 9 fráköst þegar nýliðar Breiðabliks lönduðu sínum öðrum deildarsigri í röð með naumum 75-71 sigri á botnliði ÍR. Ómar Sævarsson var drjúgur í liði ÍR með 19 stig og 23 fráköst en það dugði ekki til að þessu sinni og því hafa ÍR-ingar tapað fimm fyrstu leikjunum sínum í deildinni. Allt benti til þess í upphafi að Blikar myndu sigla inn í öruggan sigur en ÍR lét heimamenn hafa vel fyrir stigunum í spennandi síðari hálfleik.
ÍR komst í 4-8 en þá tóku heimamenn við sér og breyttu stöðunni í 13-10 eftir hraðaupphlaup þar sem Kristján Rúnar Sigurðsson lagði boltann snyrtilega í körfuna. Fín barátta var í upphafi leiks en bæði lið töluvert mistæk. Gestirnir með Ómar í broddi fylkingar höfðu betur í frákastabaráttunni en heimamenn leiddu 15-11 eftir fyrsta leikhluta.
Breiðablik lék ljómandi góðan varnarleik í öðrum leikhluta og héldu gestunum í aðeins sjö stigum og staðan í hálfleik var 33-18 fyrir Blika. Algert ráðaleysi var í sókn ÍR í öðrum leikhluta og menn einfaldlega smeykir við að taka af skarið en þegar sóknarmenn ÍR tóku sig til voru skotin oftast illa valin.
Jón Arnar Ingvarsson hefur látið sína menn heyra það í hálfleik því ÍR gerði sex fyrstu stig síðari hálfleiksins og minnkaði muninn í 33-24. Eiríkur Önundarson átti góðan leik fyrir ÍR í kvöld og með þremur þriggja stiga körfum í röð tókst honum að færa ÍR nær Blikum og staðan 42-40. Blikar náðu þó enn að auka muninn þar sem þeir Sovic, Rúnar Ingi og Daníel áttu fína spretti. Staðan fyrir fjórða leikhluta var því 54-48 Blika í vil.
{mosimage}
(Sveinbjörn Claessen)
Mikil spenna var í fjórða leikhluta og Steinar Arason hélt ÍR við efnið með vel tímasettum þristum. Hann minnkaði muninn í 64-62 með einni eldflaug en Blikar voru ávallt fljótir að svara. Þegar skammt lifði leiks varð Ómar Sævarsson að fara af velli hjá ÍR með fimm villur og dró það úr mætti ÍR í teignum. Daníel Guðmundsson og Loftur Þór Einarsson ráku svo smiðshöggið fyrir Blika með góðu samspili þegar 44 sekúndur voru til leiksloka og breyttu stöðunni í 73-66. Sá tími reyndist of naumur fyrir ÍR til að jafna metin og lokatölur því 75-71 fyrir Blika sem fögnuðu sigrinum vel.
Sovic, eins og fyrr segir, gerði 31 stig og tók 9 fráköst fyrir Blika. Honum næstur var Rúnar Ingi Erlingsson með 16 stig og 4 stoðsendingar. Daníel Guðmundsson átti flottar rispur með 10 stig fyrir Blika.
Hjá ÍR var Eiríkur Öndunarson atkvæðamestur með 27 stig og 8 stoðsendingar. Ómar hélt áfram að fara á kostum í fráköstunum með 23 kvikindi í kvöld og 19 stig. Næstur kom Sveinbjörn Claessen með 10 stig og 5 fráköst. Steinar Arason átti nokkrar mikilvægar körfur og lauk leik með 9 stig.
Hreggviður Magnússon lék ekki með ÍR í kvöld en hann er enn meiddur og þá var Hjalti Vilhjálmsson í borgaralegum klæðum á bekknum hjá Blikum.
Tölfræði leiksins
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0xNSZvX2xlYWc9MiZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0xMzQ=
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}