spot_img
HomeFréttirSolna hefur mikinn metnað

Solna hefur mikinn metnað

20:42
{mosimage}

(Sigurður Ingimundarson)

Landsliðsþjálfarinn Sigurður Ingimundarson hefur tekið við Solna Vikings í Svíþjóð og mun þjálfa liðið á næstu leiktíð en Solna vann til silfurverðlauna í sænsku deildinni á síðasta tímabili. Þar á undan varð liðið meistari en Íslendingar eru Solna Vikings að góðu kunnir en Norðurlandamót yngri landsliða fara fram ár hvert í Solna Hallen á heimavelli Solna Vikings. Sigurður sagði í samtali við Karfan.is að hann hefði leynt og ljóst stefnt að því að gera þjálfun alfarið að atvinnu sinni og nú væri það markmið í höfn. Enginn þarf að velkjast í vafa um að brotthvarf Sigurðar úr íslenska boltanum sé blóðtaka bæði fyrir Keflavík og körfuboltann í heild sinni á Íslandi enda Sigurður einn reyndasti og færasti þjálfari landsins.

,,Við fórum yfir nokkur mál og mér leist vel á aðstæðurnar,“ sagði Sigurður sem í dag kom heim frá Svíþjóð eftir viðræður við Solna. ,,Við í fjölskyldunni höfum ekki ákveðið málin en ég geri ráð fyrir því að byrja úti aleinn og svo hugsa ég að ég taki fólkið mitt til mín,“ sagði Sigurður um komandi búferlaflutninga.

Fyrrum þjálfari Solna hefur samið við finnskt lið og því voru Solnamenn á höttunum eftir nýjum þjálfara en sá er nú yfirgefur þjálfarastólinn í Solna þjálfaði m.a. Loga Gunnarsson þegar hann lék með ToPo Helsinki í Finnlandi og sagði Siguður að töluverð ánægja hefði verið með hans störf í Svíþjóð.

,,Ég þekki svolítið til deildarinnar í Svíþjóð og hún er sterk, mörg ágætis lið þarna og nokkuð margir fagmannlegir klúbbar og Solna Vikings er á meðal þeirra,“ sagði Sigurður en gerðist ómyrkur í máli þegar undirritaður innti hann eftir því hvort þetta væri mikið stökk upp á við í launum.

,,Það er meira að gerast í sænsku deildinni heldur en hér heima og það má áætla að launin þarna úti séu hærri heldur en hér,“ sagði Sigurður léttur í bragði en nú segir hann skilið við Keflavík þar sem hann hefur átt glæstan feril síðustu 13 árin eða svo.

,,Ég tók eitt ár í hlé á þessum tíma þegar Guðjón Skúlason og Falur Harðarson voru með Keflavíkurliðið en ég er sáttur við mín störf fyrir Keflavík og það er óvenjulegt að sami maðurinn sé svona lengi hjá einu félagi. Þá er það líka styrkur og segir manni að maður hafi verið að gera fínustu hluti,“ sagði Sigurður sem var með ungt og efnilegt Keflavíkurlið í höndunum á síðustu leiktíð.

,,Við fórum í gegnum síðasta vetur og vorum þá að leggja upp næsta vetur með því hugarfari að vinna á næsta tímabili. Ég var að mestu leyti sæmilega sáttur við síðasta vetur og vona bara að næsti vetur verði afraksur. Ég á ekki von á því að það markmið breytist neitt og mun fylgjast náið með gangi mála,“ sagði Sigurður sem á enn eftir að klára að leggja línurnar með Solna fyrir næstu leiktíð.

,,Þetta eru fagmenn þarna úti og vita alveg hvað þeir eru að gera og fyrir hvað þeir standa. Félagið hefur mikinn metnað og við fórum yfir málin en eigum eftir að fara betur yfir eitt og annað en ég er ánægður með það sem ég sá hjá þeim,“ sagði Sigurður en mun hann innleiða Keflavíkurboltann í Svíþjóð?

,,Það verður mitt yfirbragð á liðinu en liðsskipanin er ekki alveg klár fyrir næstu leiktíð og það þarf að fylgja mannskapnum hvernig maður leggur upp dæmið. Þetta er spurning um að spila eftir aðstæðum á þeim mannskap sem maður hefur og þeim mótherjum sem maður mætir hverju sinni. Þetta er aldrei einfalt þó það líti stundum út þannig,“ sagði Sigurður sem heldur á ný út til Svíþjóðar þegar íslenska landsliðið hefur lokið leik í riðlakeppni B-deildar í Evrópukeppninni.

Með þessari tilfærslu skipar Sigurður sér á bekk með nokkrum valinkunnum köppum sem þjálfað hafa erlendis en þess má geta að bæði Pétur Guðmundsson og Jón Sigurðsson þjálfuðu í Noregi og þá var Jón Kr. Gíslason, fyrrum liðsfélagi Sigurðar í Keflavík, þjálfari danska liðsins SISU.

,,Ég vona að þetta hjálpi til við að fleiri komist út og fái þjálfarastöður en mig langar til að sjá hversu langt ég kemst í þessu og fyrir mig er Solna fínn staður til að byrja á. Ég er klárlega með háleitari markmið en við skulum byrja í Svíþjóð og svo sjáum við hvað gerist,“ sagði Sigurður sem hefur síðustu ár unnið að því að gera körfuknattleiksþjálfun að sínu aðalstarfi og nú er það í höfn.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -