Eins og fram kom fyrr í dag er Snorri Þorvaldsson kominn að Hlíðarenda og mun leika með nýliðum Vals í Iceland Express deildinni á komandi tímabili. Karfan.is ræddi stuttlega við Snorra í dag.
,,Ástæðan fyrir því að ég fór í Val var að ég flutti til Reykjavíkur og var að hefja nám í Háskóla Íslands, og jú einnig er meira gaman að vera áfram í úrvalsdeildinni. Það er ekki hægt annað en að gefa aðstöðunni í Val nema 10 í einkunn, held að það séu ekki mörg lið með jafn góða aðstöðu og Valur,“ sagði Snorri sem segir undirbúningstímabilið hafa verið viðburðamikið.
,,Þetta er búð að vera viðburðarmikið undirbúningstímabil eftir félagaskiptin, t.d. þjálfaraskipti og hægðist aðeins á hlutunum í kringum það, en það er allt komið á fullt eftir skrýtna byrjun. Svo er hópurinn að verða góður, það eru að mér skylst nokkrar breytingar á hópnum frá því í fyrra en þetta er allt að hristast saman og verður spennandi og krefjandi vetur,“ sagði Snorri en hvernig líst honum á félaga sína í Hamri og veturinn hjá þeim í 1. deild?
,,Hamar er með fínan hóp af ungum strákum sem ég þekki og er þetta bara þeirra tími til að sýna hvað þeir geta og ég held að Hamar geti gert fína hluti í 1. deildinni í vetur undir stjórn Lalla Jóns.“