Ef fólk leit á stöðuna í deildinni og bjóst við auðveldum sigri gestanna í Síkinu í gærkvöld þá hafði það ekki rétt fyrir sér. Leikurinn var í járnum lengst af og var boðið upp á hraðan leik, góða hittni, fína dómgæslu og spennandi lokasekúndur. Flest allt sem hægt er að bjóða upp á í einum körfuboltaleik. Að lokum hafði þó Snæfell sigur eftir æsispennandi leik, 92 – 94.
Stólarnir tefldu fram Josh Rivers, Helga Frey, Rikka, Dragoljub og Helga Rafni í byrjun, en hjá Snæfelli byrjuðu Nonni Mæju, Pálmi, Ryan, Emil og Sean. Tindastóll byrjaði af krafti og virtist koma gestunum í opna skjöldu með kröftugum leik. Eftir fimm mínútna leik var staðan 14 – 6, en Snæfellingar unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn og náðu að jafna í 23 – 23. Síðasta karfa fyrsta fjórðungs var hinsvegar þristur frá Rikka fyrir heimamenn sem leiddu því með þremur. Rikki var að hitta mjög vel og var kominn með 12 stig. Hjá Snæfelli var Ryan Amoroso atkvæðamestur með 9 stig.
Stólarnir héldu forystunni fyrstu mínútur annars leikhluta, en í stöðunni 31 – 27 komu 13 stig í röð frá Snæfelli. Heimamenn náðu sér aftur á strik en gestirnir voru þó með 6 stiga forskot þegar blásið var til hálfleiks. Staðan í hléinu 44 – 50. Eins og áður segir var leikurinn nokkuð hraður og voru dómararnir ekkert að dæma of mikið, heldur leyfðu leiknum að fljóta.
Snæfell jók muninn í upphafi síðari hálfleiks og var komið með 12 stig forskot eftir fjórar mínútur. Þá tók Borce leikhlé fyrir Tindastól sem hafði góð áhrif á heimamenn. Josh og Dragoljub létu mikið að sér kveða og munurinn minnkaði jafnt og þétt. Endurkoman var síðan fullkomnuð þegar Josh skoraði síðustu körfu leikhlutans með þriggja skoti og jafnaði leikinn 73 – 73. Hann skoraði alls 12 stig á þessum kafla og fór mikinn.
Stólarnir létu ekki þar við sitja þegar fjórði leikhluti byrjaði heldur komust strax yfir og náðu 7 stiga forskoti í stöðunni 86 – 79. Þá komu 6 stig í röð frá Snæfelli og spennan orðin mikil í Síkinu. Rikki svaraði með þristi fyrir Tindastól, en aftur átti Snæfell sprett og skoruðu 7 stig í röð. Staðan 89 – 92 og rúmar tvær mínútur eftir. Helgi Rafn skoraði þá tvö stig og Snæfell nýtti ekki næstu sókn. Josh tók þriggja stiga skot fyrir Tindastól sem skrúfaðist upp úr og Pálmi Freyr skoraði með sniðskoti fyrir Snæfell í næstu sókn. Staðan 91 – 94 og rúmar 30 sekúndur eftir. Stólarnir fóru í sókn og reyndu þriggja stiga skot sem geigaði, en Helgi Rafn tók sóknarfrákast og síðan brotið á honum og fékk hann tvö víti. Þau geiguðu hinsvegar bæði, en enn náðu Stólarnir sóknarfrákasti. Þar var á ferðinni Daragoljub og enn brutu gestirnir af sér. Munurinn þrjú stig og ljóst að ekki var nóg að hitta úr báðum vítunum. Dragoljub hitti úr því fyrra, en brenndi af því síðara og eftir mikinn darraðardans í teignum barst boltinn til hans aftur undir körfunni, en einhvern veginn náði hann ekki leggja boltann ofan í úr opnu færi og fór þar síðasti sjéns Tindastóls til ná framlengingu og Snæfell fór með sigur af hólmi, 92 – 94.
Það var allt annað að sjá til Tindastólsliðsins í kvöld, en í fyrri leikjum í vetur. Allir lögðu sig fram, hittnin var góð og fín stemning í liðinu. Gestirnir voru smá stund í gang í kvöld, en virtust svo vera á góðri leið um miðjan leikinn. Heimamenn gáfust ekki upp og úr varð fín skemmtun. Allt byrjunarlið Tindastóls átti góðan leik og Radoslav átti ágætis innkomu. Stigahæstir voru Josh með 25 stig, Rikki með 22 og Dragoljub með 21. Helgi Rafn tók 11 fráköst. Ryan, Pálmi og Nonni Mæju voru bestir hjá Snæfelli og þá átti Sean góðar rispur. Ryan var stigahæstur með 24 stig og 7 fráköst. Síðan komu Nonni með 21 stig og Pálmi með 19.
Snæfell er komið með 8 stig eftir leiki kvöldsins og á toppnum ásamt Grindavík sem á inni leik. Stólarnir eru hinsvegar enn án stiga, en með svipaðri framstöðu fara sigrarnir að detta inn.
Nokkrar tölur úr leiknum: 12-6, 18-13, 26-23 – 31-27, 33-40, 44-50 – 50-57, 60-68, 73-73 – 83-77, 89-87, 92-94.
Dómarar voru þeir Kristinn Óskarsson og Einar Þór Skarphéðinsson og áttu góðan leik.
Texti: JS.
Mynd: Björn Ingi Björnsson og hér má finna myndasafn frá honum