spot_img
HomeFréttirSnæfell sigraði FSu heima í Stykkishólmi

Snæfell sigraði FSu heima í Stykkishólmi

 

Nýliðar Snæfells í fyrstu deild áttu sinn fyrsta heimaleik í þeirri deild í allnokkurn tíma þegar lið Fsu mætti í heimsókn. Bæði lið með tap í fyrstu umferð og auðvitað nokkuð í mun að næla sér í sigur.

 

Liðin voru ansi jöfn á tölunum í fyrsta hluta en staðan 22-25 eftir hann. Varnarleikur liðanna var ansi laus á hjörunum. Fsu menn komust með fyrstu stigunum í 0-4 en eftir þrista frá Geir Elíasi og Jóni Pál komust Snæfellingar við stýrið 10-6 og leikhlutinn með þessu sniði. Hálfleikstölur 46-47 þar sem Fsu smelltu einum á flautunni. Hjá Snæfelli var Christian Covile að leiða hópinn með 21 stig en Geir Elías hafði sett 4 af 5 þristum niður og var með 14 stig. Í liði Fsu var Charles Jett Speelman kominn með 20 stig.

 

Snæfellingar bættu varnarleikinn lítillega og náðu áhlaupi í þriðja hluta en Fsu jafnaði fljótt og lítið bar í milli og staðan fyrir lokaátökin 76-74 fyrir Snæfell. Ari Gylfason var að koma af krafti í seinni hálfleikinn fyrir Fsu og að sama skapi Viktor Marinó fyrir heimamenn. Það voru hörkuspennandi lokamínútur en úr stöðunni 89-91 komust Snæfellingar í 98-91 og lögðu grunnin að sigrinum á lokasprettinum og uppskáru alveg líka svona langþráðan sigur síðan vorið 2016. Lokatölur 110-103 en þetta var klárlega leikur sóknar í kvöld.

 

Þáttaskil

Þáttaskil leiksins komu undir lokin á síðustu tveimur mínútum leiksins þegar heimamenn tóku völdin og settu sig í bílstjórasætið en náðu að halda forystunni ólíkt því sem leikurinn var heilt yfir en liðin voru andandi í hálsmálið á hvoru öðru fram til loka.

 

Hetjan

Snæfellsliðið á skilið hetjuna en það skein bros úr hverju andliti eftir þennan langþráða sigur og það gegn sterku liði Fsu. Christian Covile var hins vegar einkar öflugur og setti niður 37 stig og var með 13 fráköst. Viktor Marínó var gríðalega sprækur og sprengdi oft upp völlinn en hann endaði með 18 stig.

 

Í hnotskurn

Leikur sóknar á meðan mjög margt í varnarleik liðanna var sett til hliðar en menn hittu vel og hraði leiksins var nokkur. Heilt yfir áhlaupaleikur og engin leið að sjá hverjir héldu rétt á spöðunum í lokin.

 

Tölurnar

Í fyrsta lagi heilmikið skor í leiknum. Snæfellsmenn voru með fimm leikmenn yfir 10 stig en varnarleikurinn var þeirra lokavopn sem þeir náðu að temja betur en Fsu. Geir Elías var að hitta stóru skotunum 5/6 í þristum og endaði með 17 stig.  Ari Gylfa var að koma sjóðheitur í seinni hálfleik og endaði með 28 stig en stigahæstur hjá Fsu var Charles Jett Speelman með 30 stig og 12 fráköst.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Símon B Hjaltalín

Fréttir
- Auglýsing -