Gullæðinu er hvergi nærri lokið í Stykkishólmið því Snæfell eru Lengjubikarmeistarar í karlaflokki 2010. Æðið heldur áfram og nú lágu KR-ingar í valnum 97-93. Pálmi Freyr Sigurgeirsson fór á kostum í liði Snæfells með 33 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá KR var Hreggviður Magnússon með 24 stig og 6 fráköst. Pavel Ermolinskij var ekki síðri í liði KR með 17 stig, 17 fráköst og 10 stoðsendingar.
Íslands- og bikarmeistarar Snæfells byrjuðu betur og komust í 7-0 áður en miðherjinn Fannar Ólafsson kom KR á blað. Vesturbæingar voru þó fljótir að jafna sig og minnkuðu muninn í 9-8 en það voru Hólmarar sem leiddu 24-21 að loknum fyrsta leikhluta. Hreggviður Magnússon var með fína innkomu af bekknum í fyrsta leikhluta hjá KR og Atli Rafn Hreinsson sömuleiðis í liði Snæfells.
Sean Burton fékk sína þriðju villu snemma í öðrum leikhluta og sást lítið það sem eftir var fyrri hálfleiks, slíkt hið sama má segja um Fannar Ólafsson en nokkur harka var í öðrum leikhluta.
Pálmi Freyr Sigurgeirsson var stigahæstur Hólmara í hálfleik með 22 stig þar sem hann setti niður 4 af 5 þristum sínum en hann hélt rauðum við efnið. KR-ingar reyndust þó sprækari undir lok fyrri hálfleiks og leiddu 51-47 í leikhléi. Hreggviður Magnússon og Pavel Ermolinskij voru báðir með 12 stig í hálfleik hjá KR en Pavel auk þess 9 fráköst og 7 stoðsendingar.
Eftir um 25 mínútna leik gerðist tvennt nokkuð athyglisvert, Ryan Amoroso fékk sína fimmtu villu í liði Snæfells þegar hann fékk dæmt á sig tæknivíti. Dóminn hlaut Ryan fyrir að eiga við boltann eftir að hann fór ofan í körfu KR, Amoroso hafði fengið tvær aðvaranir í fyrri hálfleik fyrir að leika sama leik og lét sér ekki segjast. Dómarar leiksins gáfu honum því tæknivíti fyrir vikið og Amoroso sást ekki meir eftir frekar dapra frammistöðu í leiknum.
Í annan stað tók það Pavel Ermolinski aðeins 25 mínútur að landa þrennu, 15 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar! KR-ingar voru ívið sterkari í þriðja leikhluta en Pálmi Freyr var sjóðandi heitur í liði Snæfells og skoraði nánast að vild. Fannar Ólafsson sá þó til þess að KR héldi forystunni og leiddu Vesturbæingar 80-78 að loknum þriðja leikhluta.
Með Amoroso fjarverandi héldu Hólmarar áfram í svæðisvörn sem gekk ágætlega enda gekk KR illa að finna körfuna með 4 þrista í 22 tilraunum! Þörf var á að annar leikmaður Snæfells myndi stíga upp á lokasprettinum enda Pálmi orðinn nokkuð þreyttur. Sean Burton svaraði kallinu og með fimm stigum í röð minnkaði hann muninn í 88-87, Hólmarar komnir á bragðið.
Næst dró til tíðinda þegar mínúta var til leiksloka en þá vippaði Burton sér upp á nýjan leik og smellti niður öðrum þrist og kom Snæfell yfir í fyrsta sinn í síðari hálfleik og staðan 93-95 fyrir Snæfell. Þegar 18 sekúndur voru til leiksloka átti Atli Rafn Hreinsson tvö vítaskot fyrir Snæfell sem bæði rötuðu rétta leið og staðan orðin 97-93 og KR-ingar skyndilega komnir með bakið upp við vegg eftir að hafa leitt lungan úr síðari hálfleik. Næsta sókn KR fór í súginn eftir erfitt þriggja stiga skot og því var eftirleikurinn auðveldur hjá Snæfell og lokatölur reyndust 97-93.
Stigaskor leikmanna:
Snæfell: Pálmi Freyr Sigurgeirsson 33/6 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 20/7 fráköst, Sean Burton 18, Atli Rafn Hreinsson 10/6 fráköst, Lauris Mizis 9/5 fráköst, Ryan Amaroso 6/6 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 1, Egill Egilsson 0, Sveinn Arnar Davíðsson 0, Gunnlaugur Smárason 0, Hlynur Hreinsson 0, Kristján Andrésson 0.
KR: Hreggviður Magnússon 24/6 fráköst, Pavel Ermolinskij 17/17 fráköst/10 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 15/4 fráköst/5 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 13/6 fráköst, Fannar Ólafsson 10/5 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 7/4 fráköst, Ólafur Már Ægisson 3, Jón Orri Kristjánsson 2, Agust Angantynsson 2/4 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 0, Illugi Auðunsson 0, Martin Hermannsson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Björgvin Rúnarsson
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski: tomasz@karfan.is