spot_img
HomeFréttirSnæfell kreisti út sigur í toppslagnum

Snæfell kreisti út sigur í toppslagnum

Stórleikur 3. umferðar Domino’s deildar kvenna fór fram í Mathús Garðabæjar höllinni í kvöld, þegar Stjarnan tók á móti Snæfelli. Bæði lið voru taplaus fyrir leik kvöldsins, og sátu því jöfn að stigum á toppi deildarinnar, eftir tvær umferðir. Það var því von á hörkuleik í kvöld, sem heldur betur gekk eftir.

Stjörnukonur byrjuðu leikinn mun betur og náðu góðu flæði í sóknarleik sinn, á meðan gestunum gekk afar illa að finna leiðir fram hjá sterkri vörn Garðbæinga. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 20-11 og virtust heimakonur á fínu róli. Hólmarar náðu hins vegar upp frábærri vörn í öðrum leikhluta, og héldu Stjörnunni í einungis 9 stigum. Staðan í hálfleik 29-25, Garðbæingum í vil. Óhætt er að segja að leikurinn hafi verið í járnum eftir það. Liðin skiptust á forystunni þangað til um 2 mínútur voru eftir, en þá náðu gestirnir loksins að slíta sig lausar frá Garðbæingum og vinna góðan, en torsóttan 9 stiga sigur, 53-62.

Af hverju vann Snæfell?

Varnarleikur beggja liða var virkilega sterkur stærstan hluta leiksins, en Stjörnukonur misstu einfaldlega dampinn í restina, sem þaulreynt lið Hólmara nýtti sér. Snæfell náði á meðan að halda Stjörnunni í einungis 33 stigum yfir síðustu þrjá leikhluta leiksins, sem verður að teljast ansi góður varnarleikur.

Best

Angelika Kowalska steig upp þegar á reyndi í liði Snæfells og lauk leik með 15 stig, auk þess sem hún spilaði frábæra vörn á Dani Rodriguez í liði Stjörnunnar allan leikinn. Rodriguez hafði skorað 37 stig að meðaltali fyrstu tvo leiki tímabilsins, en skoraði “einungis” 20 stig í leik kvöldsins.

Framhaldið

Stjörnukonur mæta Skallagrími næstkomandi sunnudag í Borgarnesi, en topplið Snæfells fer í Vesturbæinn á sama tíma og mætir KR.

 

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -