spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaSnæfell jafnar í frábæru einvígi!

Snæfell jafnar í frábæru einvígi!

Í Stykkishólmi mættust Snæfell og Þór frá Akureyri í öðrum leik liðanna í undanúrslitum 1. deildar kvenna. Það má svo sannarlega segja að umgjörðin hafi verið til fyrirmyndar í Hólminum og það glytti í gömlu góðu dagana. Full stúka og alvöru læti.

Gangur leiksins

Liðin komu virkilega peppuð til leiks og þá helst varnarlega. Eftir fimm mínútna leik var staðan 7 – 5 fyrir Snæfell og sóknarleikurinn nokkuð erfiður og greinilega mikið undir. Fyrsti leikhlutinn einkenndist af mikilli baráttu og stressi. Staðan 15 – 11 eftir 1. leikhluta og stemningin við suðumark.

Gestirnir byrjuðu leikinn örlítið betur í 2. leikhluta en á kafla læstu Snæfell algjörlega í vörninni og gestirnir komumst hvorki lönd né strönd. Frábær kafli hjá Snæfell varnarlega og var Cheah drifkrafturinn í sókninni og kom hún muninum í átta stig með góðum körfum. Leikurinn frábær skemmtun til þessa og lokaði Rebekka leikhlutanum með flautuþrist og stúkan trylltist! Staðan í hálfleik 34 – 23 fyrir Snæfell.

Í hálfleik var frákastabaráttan nokkuð jöfn en Þórsarar að tapa töluvert fleiri boltum og munurinn liggur þar. Snæfell með 16 stig eftir tapaða bolta á móti 0 stigum hjá Þór. Það er dýrmætt í leikjum sem þessum að passa upp á boltann.

Sá þriðji byrjaði töluvert betur hjá gestunum og voru 9 stig fljót að bætast við skorið þær voru að ná að stoppa og fengu sjálfstraust þannig í sókninni. Snæfell náði hins vegar að halda fengnum hlut með því að vinna sig jafn og þétt inn í leikinn með góðum körfum frá reynsluboltanum Rebekku Rán. Staðan 54 – 45 eftir þrjá leikhluta og greinilegt að leikurinn verður stál í stál áfram.

Það voru fleiri að setja boltann ofan í körfuna en áhorfendur fengu að spreyta sig á Bónus skotinu á milli leikhluta með góðum árangri!

Enn og aftur byrja Þórsarar leikhluta betur og koma muninum niður í fjögur stig þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum. Villuvandræðin lítil og vonandi fá þær bestu að klára leikinn. Það er hins vegar mikil harka í leiknum og leikmenn virkilega að láta fyrir sér finna. Úrslitakeppnin er svo frábær tími hvar og hvenær sem er, við skulum njóta.  Þegar rúm mínúta var eftir af leiknum var staðan 62 – 56 fyrir Snæfell og heimakonur með boltann. Þær kasta boltanum frá sér og brjóta hinu megin. Madison skorar úr tveimur vítum og kemur muninum niður í fjögur stig. Í næstu sókn klikka heimakonur og brjóta á Evu Wiium sem setur annað ofan í og leikurinn kominn í þrjú stig. Þórsarar pressa og þvinga Snæfell í erfiða sendingu sem endar með því að Þór vinnur boltann þegar 28 sekúndur eru eftir. Þórsarar fá tvær erfirðar þriggjastiga tilraunir sem enda með því að Cheah nær sínu 11 frákasti og á henni er brotið. Með ís í æðunum klárar Chech leikinn á línunni og Snæfell jafnar einvígið 1-1 og heldur til Akureyrar á föstudaginn í leik 3. Lokastaða leiksins var Snæfell 64 – 59 Þór Akureyri.

Frábær sigur hjá Snæfell í mögnuðum leik og það er á hreinu að þetta einvígi mun halda áfram að bjóða upp á naglbíta.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Sumarliði Ásgeirsson)

Fréttir
- Auglýsing -