spot_img
HomeFréttirSmásaga af Chevy Chase körfuboltans

Smásaga af Chevy Chase körfuboltans

 

Í október í ár eru liðin 11 ár síðan Hermann Helgason, fyrrum formaður Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, ákvað að reka Jimmy Miggins frá Keflavík. Þessi mikli heimspekingur og einstaki persónuleiki heiðraði okkur Keflvíkinga með nærveru sinni aðeins í um þrjár vikur. Hann skildi hins vegar eftir minningar sem lifa að eilífu. Þann stutta tíma sem Jimmy Miggins klæddist Keflavíkurtreyjunni var hann gangandi „one-liner“, þ.e. svör hans og athugasemdir voru yfirleitt í stuttum frösum eða setningum. Ekki ósvipað Chavy Chase, einum besta 80´s gamanleikara sögunnar!

 

 

Þegar við ungu leikmennirnir í Keflavík sóttum hann á FIT-Hostel, þar sem hann gisti fyrstu tvo dagana í bland við hælisleitendur, spurðum við hann hvort hann vildi ekki kíkja með okkur á tveir fyrir einn á sportbar í bænum stóð ekki á svarinu; „Well, there sure ain´t no happy hour over here…”. Þegar Jimmy komst að því að kvennaliðið væri með kana í sínum herbúðum spurði hann okkur hvaðan í Bandaríkjunum hún væri. Við segjum honum það og um leið var hann handviss að hún væri ekki fyrir karlmenn. Við félagarnir þrætum um þetta í dágóða stund og sammælumst um að hann hringi í hana til að komast að því. Þetta símtal var í um það bil 2 mínútur og 18 sekúndur. Eftir að hún neitaði að hitta hann um kvöldið því hún ætti „partner“ í Bandaríkjunum endaði Minkurinn, eins og hann var jafnan kallaður, símtalið með þessari ódauðlegu línu; „Come on girl – it´s not like I´m asking you to bend over and touch your toes“.Símtalið varð ekki lengra og okkar maður var ekki lengi að slá fram staðreyndum málsins; „Told you guys – she is gay“.

 

Eftir að hafa verið hluti af Keflavík í nokkra daga varð Jimmy Miggins Norðurlandameistari félagsliða með liðinu. Í úrslitaleiknum, sem m.a. var dæmdur af Kristni Óskarssyni, átti hann rosalega troðslu sem Kristinn dæmdi ranglega af vegna of margra skrefa. Gekk Jimmy Miggins þá að Kristni og sagði; „Damn ref, you took away the only highlight of the game…” Þess ber að geta að Jimmy Miggins var síður en svo edrú kvöldið fyrir þennan úrslitaleik. Ekki frekar en fyrir aðra leiki eða æfingar. Við vorum auðvitað ekki fyrr komnir upp í flugstöð á leið okkar til Noregs en okkar maður var búinn að að gera kaupsamning um miniature áfengisflöskur í fríhöfninni.  Aðspurður hvað hann væri að hugsa sagði hann við mig; „It´s gonna be a smooooth flight…“. Í sömu ferð var Keflavíkurliðið að ganga saman á lestarstöð í Osló í góðu veðri. Þegar við göngum framhjá norskum betlara sem var gríðarlega illa á sig kominn segir undirritaður við Jimmy: „Jimmy, why don´t you give him some money?” Svar hans var stutt og laggott: „Shiii, I´m as poor as him…”. Á þessu móti borðuðum við í mötuneyti sem var vægast sagt slæmt. Fyrsta daginn var boðið upp á pottrétt. Annan daginn mættum við á svæðið og þá leit Jimmy Miggins ofan í stóran pott og kváði; „Shiiiiii, JAILHOUSE ROCK again!?!?”. Því næst smakkaði hann tvær djústegundir og í þann mund sem hann frussaði seinna glasinu út úr sér sagði hann:„Damn, this went from terrible to horrible…”. Það verður seint sagt að Jimmy Miggins hafi verið sömu hæfileikum gæddur í landafræði og Dora The Explorer og Diego. Þegar hann kom til Íslands kvartaði hann gjarnan yfir veðrinu. Þegar farið var til Noregs veit ég ekki hvort hann bjóst við því að hann væri á leið til Grikklands. Hann taldi sig a.m.k hlunnfarinn enda sá hann hvergi sól, strendur né léttklæddar konur. Þegar liðið var á Noregsförina, sirka á þriðja degi lét hann eftirfarandi út úr sér; „I´m starting to hate OVERSEAS…”

Fljótlega eftir að heim var komið úr Noregsferðinni var hann rekinn, ekki aðeins vegna lakrar frammistöðu á vellinum heldur einnig vegna þess að honum þótti sopinn einum of góður. Þegar Gunnar Stefánsson var á leið með kappann upp í flugstöð tók hann eftir því að hann var með útvarp meðferðis sem hann hafið keypt í Samkaup með „matarmiðum”. Gunnar spyr hann furðulostinn hvort hann ætli virkilega að fara með útvarpið með sér til Bandaríkjanna enda annað rafmagnskerfi þar í landi. Svarið kom á óvart; „No, please drive by Herman´s store! I´m going to throw this into his window…”. Hermann Helgason, fyrrum formaður og skósölumaður, hafði þá verið sá sem sagði honum upp og vildi Jimmy launa honum lambið gráa með því að brjóta rúðu í skóverslun hans áður en hann færi úr landi.

En nóg af blaðri um hluti sem skipta öllu máli. Förum í það sem skiptir engu máli. Fyrstu umferðirnar búnar í karla og kvennaboltanum. Hér er það helsta;

–        Stjarnan í Domino´s deild kvenna vann sinn fyrsta úrvalsdeildarleik í sögunni gegn Keflavík í þriðju umferð. Miðað við fyrstu umferðirnar virðist Stjarnan ætla að stimpla sig strax inn sem „force to be reckoned with“…

–        Með innkomu Bryndísar Guðmundsdóttur styrkist Snæfell helling en á móti veikist hið unga Keflavíkurlið gríðarlega. Ætla að leyfa rykinu að setjast í þessu stóra Bryndís vs. Margrét máli áður en ég öskra úr hlátri yfir því…

–        Tinda$tóll hrikalega massívir karlameginn og það án kana í fyrstu tveimur umferðunum. Er rosalega skotinn í þessu liði. Góð blanda yngri og eldri leikmanna, þó aðallega eldri. Vel flestir leikmenn líta út eins og körfuboltamenn til viðbótar við að hafa körfuboltahæfileika. Þeir sem hafa minni hæfileika (lesist Helgi Viggóson) bæta það hins vegar upp með því að vera vaxnir eins og grísk goð í bland við sveitaelju og dass af geðveiki. Hver myndi ekki Helga…?

–        Grindavík hefur komið mér smá á óvart karlamegin. Bjóst svo sem við þeim góðum en hélt þeir myndu lenda í meiri vandræðum án kana.

–        Ég virðist svo hafa haft rangt fyrir mér í byrjun með lélegu liðin, bæði kk og kvk megin. Þau áttuðu sig greinilega á því strax…
 

Tengt efni: Alvaran að hefjast

Fréttir
- Auglýsing -