9:42
{mosimage}
Undankeppni Ólympíuleikanna hélt áfram í Aþenu í gær. Slóvenar urðu fyrstir til að tryggja sér sigur í sínum riðli þegar þeir lögðu Kanada 86-70 og var Jaka Lakovic leikmaður Barcelona stigahæstur Slóvena með 19 stig.
Í hinum þremur riðlunum skýrðist í gær hvaða lið halda heima á leið að lokinni riðlakeppninni. Líbanon tapaði fyrir Brasilíu 94-54 og hefur því tapað báðum leikjum sínum og getur því haldið heim á leið. Marcelo Huertas leikmaður Joventut var stigahæstur Brasilíumanna með 17 stig.
Annað liðið til að kveðja keppnina var lið Grænhöfðaeyja. Liðið mætti Dirk Nowitzki og félögum í þýska landsliðinu í gær og steinlá, 104-68. Dirk var stigahæstur Þjóðverja með 16 stig.
Seinasta liðið til að ljúka keppni var Kamerún sem tapaði fyrir Puerto Rico 81-72. Ricky Sanchez skoraði mest í jöfnuð liði Puerto Rico eða 17 stig.
Riðlakeppninni lýkur í dag og skýrist það þá hvort það verður Kanada eða Suður Kórea sem nær síðasta sætinu í 8 liða úrslitum keppninnar en 3 lið vinna sér svo rétt til að leika á Ólympíuleikunum. Aðrir leikir dagsins eru Puerto Rico – Króatía, Þýskaland – Nýja Sjáland og Brasilía – Grikkland.
Mynd: www.fiba.com