spot_img
HomeFréttirSlemma hjá Keflavík: Sópuðu til sín fjórtánda Íslandsmeistaratitlinum

Slemma hjá Keflavík: Sópuðu til sín fjórtánda Íslandsmeistaratitlinum

 
Keflavík er Íslandsmeistari í fjórtánda sinn eftir 3-0 sigur á grönnum sínum í Njarðvík í úrslitarimmu Iceland Express deildar kvenna. Keflavík lagði Njarðvíkinga í kvöld 61-51 í miklum varnarslag en þessi rimma kristallaði reynslumun liðanna, annað liðið með 13 Íslandsmeistaratitla á bakinu, hitt að leika í fyrsta sinn til úrslita. Njarðvíkingar töpuðu leikjunum þremur með samtalsmun upp á 14 stig svo grænar létu granna sína hafa fyrir hlutunum en höfðu þó ekki erindi sem erfiði. Þær Ingibjörg Jakobsdóttir og Lisa Karcic voru báðar með 14 stig í liði Keflavíkur í kvöld og Karcic bætti við 16 fráköstum. Hjá Njarðvík var Julia Demirer með 14 stig og 14 fráköst.
Í kvöld sem og í fyrstu tveimur leikjunum voru það Njarðvíkingar sem gerðu fleiri mistök og máttu þola það að vera fyrsta liðið í nýja keppnisfyrirkomulaginu sem sópað er út úr úrslitaseríunni. Grænar urðu þó fyrsta liðið til þess að leika til úrslita komandi úr B-riðli deildarinnar og komu flestum að óvörum er þær sendu deildarmeistarar Hamars í sumarfrí. Í kvöld varð skotnýtingin þeirra banabiti, aðeins 2 af 28 þriggja stiga skotum rötuðu rétta leið.
 
Árið 2008 var síðasta sóp í úrslitarimmunni, þá sló Keflavík út KR 3-0 og með sigrinum í kvöld hefur Keflavík sópað alls sex úrslitaeinvígi síðan árið 1993 þegar úrslitakeppni kvenna hóf göngu sína.
 
Eftir að liðin höfðu þuklað sína hrúta í upphafi leiks fengu Njarðvíkingar ærlega rúningu. Grænar mættu með svæðisvörn sem Keflvíkingar hreinlega rifu í sig. Ingibjörg Jakobsdóttir og Lisa Kircic skelltu niður þristum og í stöðunni 11-2 tók Sverrir Þór leikhlé fyrir gestina. Leikhléið hafði lítið að segja því Keflavík komst í 17-2 áður en Njarðvík gat skorað á nýjan leik. Grænar algerlega á hælunum gegn Keflavík sem klárlega voru með bikarglampann í augum fyrsta leikhlutann.
 
Keflavík tók sem sagt 15-0 áhlaup en Njarðvíkingar bitu aðeins frá sér undir lok fyrsta hluta og staðan 19-8 að honum loknum. Keflvíkingar voru mun ákveðnari þar sem Ingibjörg Jakobsdóttir var í stuði en flestir Njarðvíkingar virkuðu eins og nýlentir hér á jörð eftir langt og strangt geimferðalag.
 
Njarðvíkingar gerðu sex fyrstu stigin í öðrum leikhluta og héldu áfram að leika vel eins og undir lok þess fyrsta. Pálína hélt gestunum þó fjarri með þrist, 21-14, fyrstu stig Keflvíkinga í öðrum leikhluta eftir rúmlega tveggja mínútna leik.

 
Pálína og Ingibjörg voru sterkar í liði Keflavíkur í fyrri hálfleik en Njarðvíkingar voru loks komnir í gang og unnu leikhlutann 21-15 sem þýddi að Keflavík leiddi engu að síður í hálfleik, 34-29.
 
Pálína var með 10 stig og 4 fráköst hjá Keflavík í hálfleik og Ingibjörg með 9 stig. Hjá Njarðvíkingum var Shayla Fields með 9 stig en Dita Liepkalne með 6 stig og 7 fráköst.
 
Varnarleikurinn var á oddinum í þriðja leikhluta. Njarðvíkingar minnkuðu muninn í 34-32 en þá komst Bryndís Guðmundsdóttir á línuna fyrir heimakonur og gerði þeirra fyrstu stig eftir þrjár og hálfa mínútu.
 
Njarðvíkingar voru ískaldir fyrir utan svo Keflvíkingar smelltu sér í svæðisvörn og buðu grænum oftar en ekki að skjóta sem þær yfirleitt þáðu með engum árangri. Njarðvík var 1/15 í þristum þegar Keflavík fór í svæði en Eyrún Líf Sigurðardóttir náði að lauma niður einum þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta við mikinn fögnuð grænna og staðan 45-41 fyrir Keflavík. Heimakonur tóku svo 5-0 lokasprett í þriðja og leiddu 50-43 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og Íslandsmeistaratitillinn aðeins í 10 mínútna fjarlægð.
 
Á milli þriðja og fjórða leikhluta var Guðbjörg Norðfjörð, varaformaður KKÍ, dregin fram á gólf en hún á afmæli í dag og áhorfendur sungu afmælissönginn fyrir varaformanninn. Til hamingju með daginn Guðbjörg!
 
Fjórði leikhluti var ekki síður varnarsinnaður og liðin gerðu aðeins 3 stig samtals á fyrstu þremur mínútum leikhlutans. Lisa Karcic setti stóran þrist fyrir Keflavík þegar rúmar fjórar mínútur voru til leiksloka og breytti hún stöðunni í 56-47 Kefalvík í vil. Njarðvíkingar færðust nærri en þá tók Keflavík á rás á ný og kláraði dæmið 61-51 og fögnuðu Keflavíkurkonur vel og innilega þegar lokaflautið gall og fjórtándi Íslandsmeistaratitillinn í hús!
 
Glæsileg leiktíð er nú að baki hjá Keflvíkingum sem fyrst urðu Lengjubikarmeistarar, síðar Poweradebikarmeistarar og nú loks Íslandsmeistarar. Slemma hjá félaginu og sú fyrsta í þjálfaratíð Jóns Halldórs Eðvaldssonar sem staðfesti það í samtali við Karfan.is eftir leik að nú myndu leiðir hans og Keflavíkurkvenna skilja eftir fimm góð ár.
 
Til hamingju Keflavík með árangurinn!
 
Heildarskor:
 
Keflavík: Pálína Gunnlaugsdóttir 17/7 fráköst, Lisa Karcic 14/16 fráköst/4 varin skot, Ingibjörg Jakobsdóttir 14, Bryndís Guðmundsdóttir 7/5 fráköst/5 stoðsendingar, Marina Caran 7/4 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 2/9 fráköst, Hrönn Þorgrímsdóttir 0, Hrund Jóhannsdóttir 0, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0, Eva Rós Guðmundsdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0.
 
Njarðvík : Julia Demirer 14/14 fráköst, Shayla Fields 12/7 fráköst, Dita Liepkalne 10/13 fráköst/5 stoðsendingar, Ólöf Helga Pálsdóttir 8, Auður R. Jónsdóttir 4/4 fráköst, Eyrún Líf Sigurðardóttir 3, Sara Dögg Margeirsdóttir 0, Ína María Einarsdóttir 0, Erna Hákonardóttir 0, Emelía Ósk Grétarsdóttir 0, Árnína Lena Rúnarsdóttir 0/5 fráköst, Anna María Ævarsdóttir 0.
 
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Davíð Kr. Hreiðarsson
 
Umfjöllun og myndir/ Jón Björn Ólafsson[email protected]  

Fréttir
- Auglýsing -